Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 16:39:31 (5757)

2000-03-23 16:39:31# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[16:39]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur fyrr í dag að ég nefndi --- og hv. þm. gerði það einnig að umtalsefni --- hve sýnilegt það er orðið að Framsfl. er farinn að koma fram sem deild í Sjálfstfl. (Utanrrh.: Það var nú skúffa ... ) Ég leiðrétti það þá núna, hæstv. utanrrh. talar um skúffu, að þeir séu skúffa í Sjálfstfl. (Utanrrh.: Þú sagðir það.) Að Framsfl. sé orðinn að skúffu eða deild í Framsfl. Og ekki vinstra megin í þeim flokki heldur hægra megin.

Það vekur athygli mína að þeir sjálfstæðismenn sem standa í framvarðarsveit með hæstv. utanrrh., formanni Framsfl., um að einkavæða Leifsstöð, stærstu flugstöð Íslendinga, eru hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem hefur nú ekki verið kenndur við vinstri sinnuð stjórnmál eða miðjustjórnmál og nú síðdegis kom hv. þm. Einar K. Guðfinnsson einnig Framsfl. til hjálpar, en hv. þm. hafði forgöngu um það á sínum tíma að tala fyrir einkavæðingu Landssímans, að gera Landssímann að hlutafélagi.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem er hinn mætasti maður og ég mundi hugsanlega lýsa sem kapítalista með mannlega ásýnd, eins og sagt var um Edward Heath á sínum tíma, er þrátt fyrir þá ásýnd mjög einarður talsmaður frjálshyggjusjónarmiða. Þetta eru þeir aðilar sem nú koma fram hér á Alþingi ásamt formanni Framsfl., hæstv. utanrrh. Halldóri Ásgrímssyni, og tala fyrir því að einkavæða flugstöðina í Keflavík, einkavæða Leifsstöð.

Reyndar á Framsfl. og hæstv. utanrrh. ákveðinna hagsmuna að gæta í þessu máli vegna þess að völdin yfir flugstöðinni, völdin yfir þeirri starfsemi færast til hans. Það verður væntanlega í anda hlutafélagavæðingar ríkisfyrirtækja búið til eitt hlutabréf sem fært verður undir hæstv. utanrrh., formann Framsfl., sem kemur til með að hafa öll ráð í hendi. Hann kemur til með að hafa öll ráð í hendi sér um þessa starfsemi.

Hæstv. ráðherra sagði í umræðunni fyrr í dag að menn gætu haldið áfram að spyrja, það væri ekkert sem bannaði þingmönnum að spyrja út í þessa starfsemi. En það mun standa á svörunum vegna þess að með þessari breytingu er þrengt að þingmönnum um að krefjast upplýsinga. Það er staðreynd.

Ég tek undir það sem talsmenn Samfylkingarinnar hafa sagt við þessa umræðu, sumir hverjir þótt ég sé ekki sammála þeim um áherslur í þessu máli, nema hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur sem talaði hér mjög einarðlega áðan og ég tek undir sjónarmið hennar. En ég tek undir með þeim að því leyti að eðlilegra hefði verið að ráðst í aðrar lagabreytingar samhliða formbreytingum af þessu tagi og þá vísa ég sérstaklega til frv. sem liggur fyrir þinginu um hlutafélög, þar sem kveðið er á um að hlutafélögum í eigu ríkisins verði gert skylt að veita Alþingi sömu upplýsingar um opinber málefni og ríkisfyrirtækjum. Mér hefði fundist eðlilegt að löggjöf af því tagi yrði samþykkt samhliða þeim kerfisbreytingum sem ríkið er að ráðast í. Það er ekki þar með sagt að ég sé hlynntur þeim kerfisbreytingum, síður en svo. Það er ég alls ekki.

Ég ætla að nefna aðeins aftur ummæli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Hún vék að markalínunni í pólitíkinni, við værum að fjalla um hápólitískt mál og að mikilvægt væri að við ræddum þessar markalínur. Hún sagði að á Alþingi skiptumst menn í mismunandi stjórnmálaflokka með ólíkar áherslur, og það er rétt. Ég vék að því áðan og gerði að umtalsefni orð hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, sem ég heyrði ekki betur en talaði fyrir þessari einkavæðingu, en ég sagði: öðruvísi mér áður brá, þegar jafnaðarmenn skömmuðust sín ekki fyrir að tala fyrir því að ýmis atvinnustarfsemi væri rekin á félagslegum grunni ef það hentaði. En nýkratisminn er að fara inn á aðrar brautir. Það er nokkuð sem menn eru farnir að tala fyrir t.d. innan Samfylkingarinnar.

[16:45]

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir vék t.d. að velferðarþjónustunni. Nú er það að gerast í Evrópu, hjá jafnaðarmannaflokkum í Evrópu, t.d. breska verkamannaflokknum að hann gengur harðar fram í einkavæðingunni innan velferðarþjónustunnar en jafnvel Thatcher gerði með einkaframkvæmd á sviði heilbrigðismála í öldrunarþjónustunni. Þar er farið að tala um ,,Granny Farming``, þar sem fyrirtæki hafa peninga og arð af því að reka elliheimili. Þetta er staðreynd og menn takast á um þessar línur. Ég tek hins vegar undir það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði, að það skorti á það hjá okkur hér á Alþingi að við kortleggjum landslagið. Það skortir á að við gerum okkur grein fyrir markalínum milli opinbers reksturs og einkareksturs. Ég tek undir þetta. Við höfum lagt fram þáltill., í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, þar sem við höfum lagt til að slík umræða fari fram.

Þrátt fyrir það vil ég segja að við eigum ekki að nálgast þetta tiltekna mál á hugmyndafræðilegum forsendum. Reyndar er það kjarninn í málflutningi okkar hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að skoða jafnan eðli máls, skoða hverja stofnun og starfsemi sem í hlut á hverju sinni. Það sem hér er um að ræða á að mínum dómi ekki heima í hlutafélagsforminu, alls ekki. Hvers vegna? Í fyrsta lagi er þetta gullgerðarvél. Þetta færir ríkissjóði mörg hundruð millj. kr. á ári hverju. Ég vakti máls á því fyrr við umræðuna og tók nánast af handahófi að árið 1997 var hagnaður Fríhafnarinnar 628 millj. Árið eftir hafði samanlagður hagnaður flugstöðvarinnar og Fríhafnarinnar aukist um 212 millj. kr.

Í þeim gögnum sem reidd eru fram með þessu frv. kemur fram að hlutur skattborgarans, ríkissjóðs, muni rýrna um mörg hundruð milljónir við þessar kerfisbreytingar. Síðan eru menn að rugla hér og snúa út úr og gefa í skyn að starfsmenn utanríkisþjónustunnar komi til með að starfa í verslunum á Keflavíkurflugvelli. Það er enginn að tala um slíkt og enginn sem mælir gegn því fyrirkomulagi sem við búum við núna, að rekin sé verslunarstarfsemi á vegum einkaaðila í flugstöðinni í Leifsstöð. Það er ekkert sem mælir gegn því, í því fyrirkomulagi sem við búum við núna, ekki nokkur skapaður hlutur. En mér er það algerlega óskiljanlegt hvers vegna menn ætla að taka bygginguna sem slíka og þessa starfsemi sem slíka, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, með manni og mús og gera að einkafyrirtæki. Þó er ljóst að það muni rýra hlut skattborgaranna. Menn eru fyrst og fremst og eingöngu að gera þetta á hugmyndafræðilegum forsendum nema þar séu einhver önnur og annarleg sjónarmið á ferðinni, að þjóna fjármálabröskurum sem vilja komast yfir þennan gullmola. Eða er ætlunin að forða hæstv. utanrrh. frá því að þurfa að ræða þessi mál á Alþingi?

Þetta er í hæsta máta undarleg ráðstöfun, herra forseti. Ég vil minna á að hér við umræðuna hafa verið settar fram ýmsar spurningar. Það hafa menn gert úr fleiri en einum stjórnmálaflokki. Sumir hafa þegar tekið afstöðu til þessa máls. Þetta er ekki nýtt af nálinni. Það hefur verið til umræðu bæði hér og í þjóðfélaginu í langan tíma. Aðrir vilja taka sér lengri tíma, hafa krafið hæstv. utanrrh. um upplýsingar og bíða þeirra til að taka afstöðu en ég vil lýsa því yfir hér og ítreka þá afstöðu mína að ég er þessu algerlega andsnúinn.