Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 16:50:01 (5758)

2000-03-23 16:50:01# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[16:50]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að nefna út frá orðum hv. 13. þm. Reykv. sem vakti athygli á því að samkvæmt mati fjmrn. muni þessi formbreyting verða til þess að minni peningar renni til ríkissjóðs en ella. Hvað þýðir það? Eins og ég sagði áðan hefur það þá þýðingu að þetta fyrirtæki, í eigu ríkisins, verður betur í stakk búið efnahagslega. Það verður þess vegna betur í stakk búið til þess að standa undir þeim skuldbindingum sem á því hvíla.

Í þessari umræðu í dag hefur mér heyrst að menn séu ekki síst að gagnrýna þann hátt sem hafður hefur verið á alveg frá því að flugstöðin var opnuð árið 1987, að hún hafi ekki fengið að njóta tekna sinna. Við vitum að flugstöðin hefur borgað, ég held að ég muni það rétt, í kringum 500 millj. á ári í ríkissjóð að jafnaði. Það segir okkur að ef þessi stofnun hefði fengið að njóta tekna sinna sjálf, þá væri væntanlega búið að borga upp stofnkostnaðinn og fyrirtækið væri skuldlaust, þetta glæsilega góða fyrirtæki. Þá væri það enn meiri gullmoli fyrir ríkið til lengri tíma litið. Þess vegna finnst mér mjög sérkennilegt ef það er allt í einu orðið gagnrýnisefni að Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. muni borga minna í ríkissjóð og skilja þá meira eftir hjá fyrirtækinu sjálfu, sem áður var þó stofnun. Þá verður það betur í stakk búið til þess að nota sitt sjálfsaflafé til þess að greiða af þeim kostnaði sem til var stofnað þegar fyrirtækið varð til á sínum tíma. Þetta held ég að sé kjarni þessa máls. Þess vegna er ekki hægt að gagnrýna við formbreytinguna, virðulegi forseti, að meira verði eftir hjá stofnuninni til að borga niður þennan kostnað.