Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 16:53:23 (5760)

2000-03-23 16:53:23# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[16:53]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skulum aðeins átta okkur á því um hvað þetta frv. snýst. Þetta er frv. um formbreytingu á stofnun í hlutafélag. Með því er ekki verið að taka ákvörðun um sölu hlutabréfanna. Það er sjálfstæð ákvörðun sem menn tækju ef það kæmi til álita að selja hlutabréf úr þessu fyrirtæki. Það er út af fyrir sig alveg sjálfstæð ákvörðun. Það er líka hárrétt að ekki þurfi að formbreyta þessari stofnun til að tryggja að meiri hluti afraksturs hennar renni til að standa undir skuldum hennar. Það er alveg hárrétt.

Ég var hins vegar að segja að menn geta ekki í öðru orðinu gagnrýnt að fyrirtækið hafi ekki fengið að njóta tekna sinna og borga niður skuldir. (Gripið fram í.) Nei, ég er að vekja athygli á því, hv. þm., að í þessari umræðu hefur verið gagnrýnt að fyrirtækið hafi ekki fengið að njóta sinna tekna og hafi þess vegna safnað skuldum. Ég held að að hluta til hafi það verið gert í pólitísku skyni, að reyna að setja þetta góða fyrirtæki í frekar neikvætt ljós en það er önnur saga. (Gripið fram í.) Það var ekki sorgarsaga, þessi glæsilega uppbygging þessa mannvirkis sem leysti af hólmi gamla kofa suður á Keflavíkurflugvelli, öðru nær. Það var auðvitað ánægjuleg stund þegar þessi flugstöð var tekin í notkun.

Ég er einfaldlega að segja, virðulegi forseti, að þetta er út af fyrir sig ekki gagnrýnisefni við þessa formbreytingu, sem mér fannst þó hv. þm. vera aðeins að ýja að hérna áðan. Hann sagði að þetta mundi leiða til þess að minna fari ríkissjóð en áður. Ástæðan fyrir því að minna fer í ríkissjóð er sú að meira fer til að borga niður skuldirnar við stofnkostnaðinn við þessa ágætu byggingu, Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ég tel að það sé í sjálfu sér ekkert gagnrýnisefni frekar en að formbreyta fyrirtækinu.