Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 17:08:51 (5764)

2000-03-23 17:08:51# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[17:08]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég og hv. þm. séum alls ekkert ósammála um þetta. Það er spurning hvernig menn nálgast þetta viðhorf. Ég skil hann þannig að hann sé mér sammála um að það að hlutafélagavæða sé ekki endilega forsenda þess að menn greiði skuldir Leifsstöðvar. Það er hægt að gera með öðru móti.

Það var hins vegar einkar athyglisvert sem hann sagði hér fyrr í umræðunni að honum hefði stundum fundist eftir að hann kom í þetta hús, að áhugi forsvarsmanna umliðinna ríkisstjórna hefði ekkert verið sérstaklega mikill á að greiða þessar skuldir af einhverjum þeim ástæðum að menn vildu láta þessa stofnun bera þær af pólitískum ástæðum, skildi ég hann. Ég get ekki dæmt um það, ég trúi því þó tæpast að svo sé í pottinn búið.

Hitt er annað mál að menn gleyma því ekki svo glatt hvernig helmingaskiptaflokkarnir 1983--1987 fóru með peninga skattborgara þegar þeir reistu þetta glæsilega mannvirki þarna suður frá og luku þar verki einhverjum dögum fyrir kosningar 1987, þar sem kostnaður fór langt umfram allar áætlanir. Og menn hafa verið að bíta úr nálinni með það síðan. Það gleymist auðvitað ekki neitt og engin ástæða til að hætta að borga skuldir sínar til að minna á þann pólitíska skandal.

En sala síðar, og það er auðvitað kjarni málsins sem hér er nefndur og hæstv. ráðherra hefur --- og ég hældi honum fyrir það --- sagt að það kæmi til álita. Auðvitað gerir það það. Við fylgjumst með þróun mála hjá Pósti og síma þar sem hver stjórnarliðinn á fætur öðrum sagði úr þessum ræðustól að það væri ekkert á dagskrá, það væru engin áform uppi um sölu. Það voru varla nokkrar vikur liðnar frá samþykkt hlutafélags um Landssímann að þáv. samgrh. --- og núv. samgrh. hefur hnykkt á --- var farinn að tala um söluna.