Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 17:15:32 (5767)

2000-03-23 17:15:32# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[17:15]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um þetta mikilvæga mál. Í umræðunni hefur verið látið að því liggja að þetta mál væri sérstaklega erfitt, því hefði komið í hlut utanrrh. og Framsfl. að takast á við það og það hefði ekki mætt á samstarfsflokknum í sama mæli. Ég vil vísa þessu algjörlega á bug. Það er afar góð samstaða um þetta mál milli stjórnarflokkanna. Hér er einfaldlega um mál að ræða sem taka þarf á og margir hafa komið að því, m.a. hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sem vann ágætt starf. Hann setti sig inn í þessi mál og kom með ákveðnar tillögur sem leiddu m.a. til þess að tókst að auka tekjurnar í flugstöðinni. Við höfum smátt og smátt verið að ná tökum á þessu.

Hér er verið að leggja til, eftir allmikla yfirlegu af ýmsum mönnum, að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag, m.a. vegna þess að við teljum að það form henti vel í þessum rekstri. Hér er um verslunarrekstur og þjónustu að ræða og hlutafélagsform hentar þar vel. Það er algjör misskilningur hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að Framsfl. hafi verið sérstaklega áhugasamur um það í gegnum tíðina að vera með mikinn ríkisrekstur. Hann hefur þá afar lítið lesið sögu Framsfl. og getið sér illa til um hans stefnu. Við höfum alltaf verið þeirrar skoðunar að atvinnureksturinn í landinu eigi fyrst og fremst að vera í höndum einstaklinga og samtaka þeirra, ég tala nú ekki um þegar um samkeppnisrekstur er að ræða. (Gripið fram í.) Ja, hér er að sjálfsögðu um samkeppnisrekstur að ræða. Þessi flugstöð er í samkeppni við ýmislegt annað, t.d. eru þar að hluta vörur sem einnig eru seldar í flugvélunum. Þær eru líka seldar í öðrum flugstöðum o.s.frv.

Ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi að vera sem minnst í slíkum atvinnurekstri. Hér er hins vegar lagt til að þessu verði breytt í hlutafélag í eigu ríkisins. Við skulum sjá hvernig það gengur. Það eru engin áform um það í frv. að selja hlutafélagið en það væri rangt af mér og öðrum að útiloka það um alla framtíð.

Hv. þm. Jón Bjarnason spurði hvort ekki væri verið að aðskilja flughöfnina og flugvöllinn. Það er rétt til getið hjá honum. Sú er reyndin, m.a. vegna þess að flugvöllurinn hefur þá sérstöðu að rekstrarkostnaður hans er greiddur af bandaríska varnarliðinu. Þetta er flugvöllur með tvöfaldan tilgang, annars vegar fyrir okkar flug, áætlunarflug, og hins vegar fyrir starfsemi varnarliðsins eins og allir vita. Við teljum það mjög til bóta að aðskilja þetta og fá þar hreinni línur.

Hv. þm. spurði einnig um 8. gr., hvað átt væri við með ,,útibú á öðrum stöðum``. Það kemur m.a. fram í athugasemdum að þar gæti verið um skrifstofu eða þjónustustörf annars staðar að ræða. Mér finnst líka koma til greina að þetta fyrirtæki geti rekið fríhöfn á öðrum flugvelli hér innan lands, hvort sem er á Reykjavíkurflugvelli, Akureyrarflugvelli, Egilsstaðaflugvelli ef eftir því er óskað eða um semst. Það er alveg ljóst að á þessu sviði er mikil sérþekking og getur ekki verið neitt að því að leitað sé til þeirra sem búa yfir þeirri sérþekkingu til að leysa slík mál annars staðar ef upp koma.

Hér var spurt um þjónustugjaldskrá. Þá er fyrst og fremst verið að tala um þá þjónustugjaldskrá sem gildir í dag. Menn greiða leigugjöld í þessari flugstöð auk þess sem einnig er greitt miðað við veltu. Það er slík gjaldskrá sem þarna er verið að tala um en hins vegar þykir rétt að hún sé staðfest af utanrrn. Í sjálfu sér er engin nýlunda í því.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir spurði mig nokkurra spurninga. Ég biðst afsökunar á því að ég var ekki viðstaddur þegar hún flutti ræðu sína. Ég hafði fyrir löngu lofað því að vera á mikilvægum fundi og varð að standa við það. Ég vænti þess að hv. þm. skilji það. Hv. þm. spurði hvort hér væri ekki um stuttan tíma að ræða til að meta félagið. Ég tel að það sé alveg nægur tími og ekki þurfi lengri tíma í það. Það liggur allt fyrir í þessu sambandi. Við þurfum að skipa nefnd sem þarf að fara yfir það en sá tími sem hér er til ráðstöfunar er að mínu mati yfirdrifið nægur og gæti þess vegna verið styttri.

Í öðru lagi spurði hún hversu margir hafi verið í þeirri ráðgefandi stjórn sem starfað hefur að þessum málum undanfarið. Þar hafa verið þrír einstaklingar sem hafa skilað mjög góðu starfi og lagt í þetta mikla vinnu.

Hv. þm. spurði líka um lendingargjöld. Lendingargjöld hér eru 7 dollarar og 5 sent á tonnið, þau lægstu hér á landi. Þetta er tiltölulega lágt miðað við ýmsa aðra flugvelli í Evrópu þannig að Keflavíkurflugvöllur er vel samkeppnishæfur við aðra flugvelli og 25% af þessum lendingargjöldum renna til flugstöðvarinnar.

Ég vil endurtaka þakkir mínar fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram. Hún hefur verið málefnaleg og hér hafa ýmis sjónarmið komið fram. Ég tel þó að allir þeir sem hafa tekið til máls séu sammála um að hér sé um að ræða mikilvægt fyrirtæki sem er í sókn. Störfum hefur fjölgað mikið þar og við erum að ná utan um fjármálin með þeim aðferðum sem þar hefur verið beitt. Mér finnst það nú vera aðalatriðið. Okkur ber skylda til að ná utan um þessi fjármál. Það er ekki hægt að horfa upp á að allt sé í vanskilum og dráttarvöxtum en nú hefur tekist að ná góðum tökum á þessum málum.

Við erum að leggja hérna í gífurlegan kostnað, mikla fjárfestingu sem ekki nýtist nema tiltölulega fáa klukkutíma á hverjum sólarhring. Það er ekki mjög algengt á flugvöllum í Evrópu að þar sé svona stuttur nýtingartími. Það eru miklir toppar í umferðinni í flugstöðinni sem kalla á að hér sé haldið mjög vel á málum til að dæmið gangi upp. Það er einfaldlega það sem við erum að gera. Ég vildi óska eftir því að hv. utanrmn. vinni þetta mál hratt og vel þannig að við getum lokið því tímanlega fyrir vorið.

Menn hafa haldið því fram að þetta mál hafi verið unnið nokkuð hratt. Það er rétt. En vilja þingmenn að mál séu almennt unnin hægt? Er það eitthvað markmið í sjálfu sér að menn liggi yfir þessu dögum og mánuðum saman? Ég hef aldrei litið á það sem markmið. Hins vegar er mikilvægt að vinna málin vel og vanda sig við þau. Ég tel enga ástæðu til að hanga yfir hlutunum mánuðum saman.