Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 17:35:03 (5774)

2000-03-23 17:35:03# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[17:35]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði hér síðast að það væri ómögulegt að búa við lausatök og óvissu í þessum efnum. Metur hann það ekki jafnmikils að þessi stóri hópur starfsmanna búi við vissu og öryggi um störf sín og kjör? Og væri ekki skynsamlegt að ríkisvaldið og ríkisstjórnin skipulegði fram í tímann og gæfi sér ráðrúm til að stilla og lægja öldur sem æ og aftur hafa risið með réttu eða röngu?

Ég fagna hins vegar yfirlýsingum hans varðandi hinar tvær spurningarnar. Hann lýsti yfir vilja sínum til að skipa þessa stjórn þverpólitískt, ekki raða á jötuna eins og stundum hefur viljað verða. Hann segist og til viðræðu um, með pólitíska breidd að baki, að skoða hvernig hægt er að koma í veg fyrir að algjörlega slitni á tengsl þings og hlutafélaga í eigu ríkisins.