Dómtúlkar og skjalaþýðendur

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 17:48:16 (5780)

2000-03-23 17:48:16# 125. lþ. 86.7 fundur 486. mál: #A dómtúlkar og skjalaþýðendur# (heildarlög) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[17:48]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um dómtúlka og skjalaþýðendur. Frv. felur í sér heildarendurskoðun gildandi laga um dómtúlka og skjalaþýðendur en þau eru frá árinu 1914 og nefnast lög um heimild fyrir stjórnarráðið til þess að veita mönnum rétt til þess að vera dómtúlkar og skjalaþýðendur.

Frv. þetta er byggt á tillögum nefndar sem dómsmrh. skipaði árið 1998 til að endurskoða fyrirkomulag prófa til löggildingar dómtúlka og skjalaþýðenda. Nefndin taldi nauðsynlegt að endurskoða gildandi lög sem eru komin á níræðisaldur og þarfnast lagfæringar í ýmsum atriðum.

Ég mun nú gera grein fyrir helstu atriðum í frv.

Í 1. gr. frv. segir að:

Með dómtúlk og skjalaþýðanda er í lögum þessum átt við þann sem öðlast hefur löggildingu til að annast túlkun fyrir dómi og þýðingu skjala sem hafa réttarlegt gildi.

Dómtúlkar og skjalaþýðendur eru opinberir sýslunarmenn. Njóta þeir réttinda og bera skyldur samkvæmt því.

Í 2. gr. frv. eru sett ákveðin skilyrði til að fá löggildingu sem dómtúlkur eða skjalaþýðandi en þau eru að viðkomandi sé svo á sig kominn andlega að hann sé fær um að annast túlkun og þýðingar, hafi lokið háskólaprófi, sem jafngildir meistaragráðu frá Háskóla Íslands og staðist próf.

Í 3. gr. frv. eru síðan nánari ákvæði um próf og fyrirkomulag þess.

Í 4. gr. frv. eru nánari ákvæði um löggildingu og störf dómtúlka og skjalaþýðenda. Þar segir m.a. að dómsmrh. skuli halda skrá um þá sem hafa löggildingu sem dómtúlkar og skjalaþýðendur. Með þessu verður unnt að veita upplýsingar fyrir þá sem þurfa á þessari þjónustu að halda og er fyrirhugað að veita aðgang að skránni á heimasíðu ráðuneytisins.

Þá segir í 6. gr. frv. að þeir einir megi nefna sig dómtúlka eða skjalaþýðendur sem hafi til þess löggildingu. Lagt er til að brot gegn þessu varði sektum.

Herra forseti. Ég hef nú í aðalatriðum rakið efnisatriði frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.