Skýrsla um Schengen-samstarfið

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:08:36 (5787)

2000-04-03 15:08:36# 125. lþ. 87.1 fundur 413#B skýrsla um Schengen-samstarfið# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég sagði ekki að okkur kæmi þetta ekkert við. Ef einhver er að snúa út úr, þá er það hv. þm. Ögmundur Jónasson. Ég sagði einfaldlega að þessi skýrsla breytti ekki okkar skoðunum og ég veit ekki til þess að mér eða öðrum beri einhver skylda til þess að vera sammála slíkri skýrslu jafnvel þótt hv. þm. líki hún. Ég tel að þarna sé farið yfir þetta mál með þeim hætti að það sé ekki fullnægjandi, málið er ekki rökstutt á þann hátt sem hefði þurft að gera og ein hlið tekin á málinu en ekki ýmsar aðrar. Þetta mál verður einfaldlega ekki dæmt á þann hátt. Hér er um stórpólitískt mál að ræða sem skiptir hagsmuni íslensku þjóðarinnar mjög miklu til lengri tíma litið. Það liggur alveg ljóst fyrir að nokkur kostnaður er af þessu máli en ávinningurinn er hins vegar mjög mikill og það ber að sjálfsögðu að hafa í huga þegar heildarmat er lagt á málið.