Ný gögn í Geirfinnsmálinu

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:12:58 (5790)

2000-04-03 15:12:58# 125. lþ. 87.1 fundur 414#B ný gögn í Geirfinnsmálinu# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:12]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Það virðist hafa verið mat þeirra aðila sem komu að rannsókn málsins að umrædd gögn hafi ekki skipt máli við rannsókn og meðferð málsins almennt séð.

Svo ég reki aðeins tildrög þessa máls, þá var það lögmaður Magnúsar Leópoldssonar, Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður, sem átti fund með mér og bað um liðsinni dómsmrn. við að kanna hvort hugsanlegt væri að einhvers staðar í kerfinu væru til viðbótarskjöl sem tengdust umbjóðanda hans og Geirfinnsmálinu. Ég taldi að sjálfsögðu rétt að verða við þeirri beiðni og skrifuð voru bréf til bæði dómstóla og lögregluyfirvalda og beðið um nákvæma könnun á málinu.

Nýlega kom í ljós að viðbótargögn hafa fundist sem eru merkt Geirfinnsmálinu og eru að því er ég best veit að mestu tengd svonefndu spíramáli, sem svo er nefnt, sem upp kom í byrjun rannsóknar í Geirfinnsmálinu. Lögmanninum var sent bréf nýverið og honum skýrt frá þessum fundi og boðið að skoða öll gögn í tengslum við þetta mál. Ég bíð eftir viðbrögðum lögmannsins í þessu sambandi en hann er nú að fara yfir málið í heild sinni.