Sérstaða framhaldsskóla með bekkjakerfi

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:24:39 (5799)

2000-04-03 15:24:39# 125. lþ. 87.1 fundur 416#B sérstaða framhaldsskóla með bekkjakerfi# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:24]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Undanfarið hefur staðið styr um nýja aðalnámskrá framhaldsskóla. Þrír skólar hafa öðrum fremur látið í ljósi áhyggjur af stöðu sinni innan breyttrar tilhögunar í kerfinu. Þar hefur jafnvel borið á óánægju vegna þeirra vinnubragða hæstv. menntmrh. Hér á ég við Verslunarskólann, Menntaskólann á Akureyri og Menntaskólann í Reykjavík. Ótti nemenda og starfsfólks í þessum skólum hefur snúist um að verið sé að fórna sérstöðu skólanna sem hingað til hafa boðið upp á nám til stúdentsprófs sem gengur eftir öðrum brautum en fjölbrautakerfið. Hæstv. menntmrh. hefur lent í rimmu við nemendur og starfsfólk þessara skóla sem nú hefur leitt til þess að einn af þessum þremur skólum, þ.e. Verslunarskóli Íslands, hefur fengið samning um að öllum hans óskum verði mætt. Málið virðist því leyst varðandi Verslunarskóla Íslands og það er vel.

En þá rétt að spyrja um framhaldið: Er gert ráð fyrir því að Menntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn í Reykjavík fái ámóta undanþágur? Mun fyrirkomulag bekkjakerfis sem verið hefur í þessum skólum og sú sérstaða sem námsbrautir innan þeirra hafa markað sér fá ámóta viðurkenningu og sú námsbraut sem nú er viðurkennd sem námsbraut til stúdentsprófs í Verslunarskóla Íslands?