Hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:33:58 (5807)

2000-04-03 15:33:58# 125. lþ. 87.1 fundur 417#B hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er rétt að sveppalyfin falla undir sama flokk og fúkkalyfin. Aftur á móti eru reglurnar sem snúa að sveppalyfjunum þannig að það er erfitt að fá lyfjaskírteini og menn fá ekki lyfjaskírteini fyrr en eftir tvo mánuði. Fyrstu tvo mánuðina verða aldraðir og allir sem fá sveppasýkingar að greiða þetta að fullu og þetta eru 20 þús. kr.

Það getur vel verið að suma muni ekkert um að borga 20 þús. kr. fyrir fyrsta lyfjaskammtinn þangað til þeir fá lækkunina. En fólk sem er á lágmarkslífeyri, sem er kannski 50 þús. kr., hefur ekki efni á þessu. Það leysir ekki út lyfin. Ég hef upplýsingar um að fólk leysir ekki út þessi lyf vegna þess að það hefur ekki efni á þeim og það gerir það auðvitað að verkum að sveppasjúkdómarnir smitast miklu hraðar og við erum þar með ekki að koma í veg fyrir að þeim fjölgi sem fá þessa sjúkdóma. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er hún tilbúin til að taka sérstaklega á þessu vegna þess að þetta snýr sérstaklega illa að öldruðum og kemur mjög illa við þá sem hafa litlar tekjur?