Breytt staða í álvers- og virkjanamálum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:51:16 (5816)

2000-04-03 15:51:16# 125. lþ. 87.95 fundur 422#B breytt staða í álvers- og virkjanamálum# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er að mínu mati algerlega rangt sem hv. þm. sagði að það sem nú hefur komið upp hafi kollvarpað áformum í virkjana- og stóriðjumálum á Austurlandi. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir að það var vilji ríkisstjórnarinnar að fara í tiltölulega lítinn áfanga m.a. vegna þess að það er tiltölulega fátt fólk á Austurlandi og það er þjóðhagslega heppilegra að fara í minni áfanga eins og ráð var fyrir gert. Þegar það kemur hins vegar upp að fjárfestarnir vilja fara í stærri áfanga, þá verður að sjálfsögðu að líta á það mál eins og það kemur fyrir. Það hefur ýmsa kosti en það hefur einnig galla. Gallarnir eru m.a. þeir að slíkt álver kæmist í notkun mun seinna en annars hefði orðið og áhrifin á byggð á Austurlandi og þjóðhagslegu áhrifin koma seinna fram.

Hv. þm. sagði að því hefði verið lýst yfir á Alþingi að ekki væri ætlunin að stækka þetta álver. Ég vitna þar til Hallormsstaðaryfirlýsingarinnar þar sem gert er ráð fyrir því að álver á Reyðarfirði yrði stækkað síðar meir og gæti orðið allt að 480 þúsund tonn með þeim fyrirvörum sem þar þurfti að setja fram og það hefur alltaf verið gert ráð fyrir því að Kárahnjúkavirkjun kæmi til síðar.

Nú er það svo með þann þingflokk sem hv. þm. er talsmaður fyrir að hann er á móti öllum þessum framkvæmdum og vill breyta öllu svæðinu í þjóðgarð og ásakar okkur um að skapa óvissu. Það má kannski segja að hægt sé að skapa vissu, eða hvað? --- með því að gera ekki neitt og hreyfa sig ekkert og loka sig inni í málum og ákveða að þarna verði orkan ekki nýtt og segja ávallt: Það verður að gera eitthvað annað fyrir Austurland. Hvað er þetta annað? Það væri fróðlegt að hv. þm. upplýsti það.

Víða háttar svo til á landsbyggðinni að atvinnumál eru ekki í nægilega góðu lagi og ákveðinn flótti hefur verið frá landsbyggðinni þannig að hér er Austurland ekki eitt á ferð. Það þarf líka að huga að öðrum landshlutum en það liggur alveg ljóst fyrir að mestu möguleikar þessa landsfjórðungs eru á sviði orkuvinnslu og tilheyrandi stóriðju.

Hv. þm. spurði hvað yrði gert að því er varðar rammaáætlun. Það liggur alveg ljóst fyrir að þessi virkjun, þ.e. Kárahnjúkavirkjun, er á skipulagi um miðhálendið og gert er ráð fyrir þeirri virkjun í því skipulagi. Það kemur að sjálfsögðu til kasta Alþingis að heimila byggingu þeirrar virkjunar. Slík heimildarlög eru ekki fyrir hendi. Það kæmi því væntanlega til kasta Alþingis næsta haust að taka ákvörðun um hvort rétt væri að leyfa byggingu þeirrar virkjunar eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar að það sé sjálfsagt að leyfa þá virkjun, enda er hún í því skipulagi sem lagt hefur verið fram en þar verður um sjálfstæða ákvörðun Alþingis að ræða.

Að því er varðar önnur þau mál sem hv. þm. gat hér um, þá er það vilji ríkisstjórnarinnar að haldið verði áfram við undirbúning þessa máls eins og áður hafði verið ætlað, t.d. að því er varðar vegagerð í Fljótsdal sem tengist virkjunarframkvæmdum en sú vegagerð er nú í umhverfismati. Væntanlega verður ráðist í nauðsynlega vegagerð þegar niðurstöður í því liggja fyrir og málið er tilbúið til framkvæmda. Ríkisstjórnin hefur lagt fram á Alþingi nýja áætlun um jarðgangagerð þar sem m.a. koma inn jarðgöng á Austurlandi þannig að allt það sem hv. þm. nefndi er í gangi, m.a. með því að ríkisstjórnin hefur lagt fram þessa tillögu. Ég vænti þess að fram fari góð vinna á næstu vikum varðandi þetta mál og innan fimm vikna geti legið fyrir hver verða næstu skref í málinu. Það verður áfram unnið að því eins og áður hafði verið áætlað og við það miðað að virkjunarframkvæmdir með tilheyrandi stóriðju á Austurlandi geti hafist eins fljótt og kostur er.