Breytt staða í álvers- og virkjanamálum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:58:47 (5818)

2000-04-03 15:58:47# 125. lþ. 87.95 fundur 422#B breytt staða í álvers- og virkjanamálum# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:58]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Allir talsmenn ríkisstjórnarinnar lögðu ætíð höfuðáherslu á þegar þessi mál voru til umræðu að það væri ekkert í hendi, menn hefðu ekkert í hendi. Á hinn bóginn væri sjálfsagt og nauðsynlegt að undirbúa alla þá kosti sem menn gætu notað til þess að koma málum í höfn. Þetta var ætíð sagt af hálfu ríkisstjórnarinnar, og bent á að meðan samningar lægju ekki fyrir við virkjunaraðila og verksmiðjureisandann væri ekkert í hendi. Þetta vissu menn. Það þarf ekkert að koma á óvart að breyting verði síðan.

Ég tel að sú breyting sem nú hefur orðið geti út af fyrir sig verið farsæl og heppileg. Ég held að minni ágreiningur ætti að reynast um þennan virkjunarstað, þessi virkjun er afar heppilegur virkjunarkostur að mínu áliti. Ég held að enn meiri samstaða ætti að nást meðal þjóðarinnar um þessa virkjun en hina fyrri sem ég studdi þó auðvitað ákaft.

Menn hafa talað um að þessi virkjun og þessar framkvæmdir yrðu of dýrar og mundu spenna um of upp íslenskt efnahagslíf. Ég bað Þjóðhagsstofnun sérstaklega að athuga fyrir mig og bera saman framkvæmdir sem yrðu við Kárahnjúkavirkjun og þetta stórt iðjuver á Reyðarfirði. Í ljós kemur að umfangið, bæði hvað varðar fjárfestingu og vinnumarkað, og sem hlutfall af landsframleiðslunni er afar svipað og þær framkvæmdir sem við réðumst í á árunum 1966--1968 og er það svipað umfang. Þó yrði vinnuaflsnotkun eða hlutfallið nokkru minna en þá var. Þetta er því augljóslega verkefni sem við getum ágætlega ráðið við og ég er sannfærður um að þetta verkefni verður okkur farsælt og okkur til heilla.