Breytt staða í álvers- og virkjanamálum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 16:00:39 (5819)

2000-04-03 16:00:39# 125. lþ. 87.95 fundur 422#B breytt staða í álvers- og virkjanamálum# (umræður utan dagskrár), PBj
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[16:00]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Það má með sanni segja að stóriðjumál og virkjunarhugmyndir Framsfl. á Austurlandi séu að verða eitt mesta klúður sem um getur. Þingmenn Frjálslynda flokksins hafa áður bent á að flótti fyrrv. iðnrh. úr þeim stól átti rætur sínar að rekja m.a. til þess öngþveitis sem þessum málum hafði verið siglt í.

Nú hefur hæstv. iðnrh., sem tók við málinu, tekið til við að gefa út yfirlýsingar þess efnis að æðstu menn Norsk Hydro verði alveg á næstunni kvaddir til Íslands og látnir skrifa undir samninga um fjárfestingar í stóriðju á Reyðarfirði sem nú eru helst líkur á að aldrei muni rísa af grunni, a.m.k. verður engin orka til slíkrar stóriðju næstu sjö til átta árin. Raunar er vafasamt að það muni standast umhverfismat að leiða gruggið úr Jökulsá á Dal yfir í Fljótsdal.

En vegna Austfirðinga sem dregnir hafa verið á tálar í þessu máli er mikil þörf á skjótum viðbrögðum því hætt er við að nú bresti á hraðari fólksflótti en áður vegna þessara vinnubragða. Að vísu vænta menn þess að innan tíðar skipist mál á þann veg að Austfirðingum sem og öðrum strandbúum landsins verði gert kleift að sækja sjóinn, sem mun hafa mest að segja í að hindra byggðaröskun. En vegna blekkinga af þessu tagi í stóriðju- og virkjanamálum er nauðsynlegt að finna ný úrræði sem verða mættu atvinnuvegum eystra til eflingar, svo sem stuðningur við ferðaþjónustu auk margs annars.

En umfram allt þurfa Austfirðingar að gjalda varhug við þeim blekkingaráróðri sem að þeim hefur verið haldið og á greinilega að stunda áfram eins og flest virðist benda til.