Breytt staða í álvers- og virkjanamálum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 16:07:18 (5822)

2000-04-03 16:07:18# 125. lþ. 87.95 fundur 422#B breytt staða í álvers- og virkjanamálum# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[16:07]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ekki hefur sést mikið til Sjálfstfl. að undanförnu né heyrst frá honum um gjörbreytta stöðu virkjanamála norðan Vatnajökuls. Tímabært er að forsrh. axli ábyrgð sína á málinu sem hann telur farsælt nú í dag.

Innkoma málsins í þingið í haust og allur málabúnaður var byggður á eindæma veikum grunni eins og nú hefur komið í ljós. Hagfræðingar sýndu fram á að 120 þús. tonna álver stæði ekki undir sér. Við í Samfylkingunni bentum á það í umræðunni í desember. Nú er það staðfest af fjárfestunum sjálfum.

Þegar umhvrh. felldi úr gildi úrskurð skipulagsstjóra, sem varðaði 480 þús. tonna álver, varð strax ljóst að Framsfl. ætlaði að losa sig úr þeirri erfiðu pólitísku stöðu sem virkjun Eyjabakka hafði sett þá í. Þjóðin stóð frammi fyrir fyrsta kafla í leikriti sem nú er að ná hápunkti sínum. Allan tímann var ljóst um afstöðu Norsk Hydro og að ekkert var fast í hendi með fjárfesta. Hallormsstaðaryfirlýsingin reyndist upphafið að afleitum vinnubrögðum Alþingis. Þingmenn voru dregnir á asnaeyrum og stjórnarliðar létu hafa sig í að gera eins konar umhverfismat sjálfir.

Hverjir eru svo þolendur þessarar atburðarásar? Ekki ríkisstjórnin, ekki Framsfl. og aldeilis ekki fjárfestarnir. Nei, herra forseti, allt þetta mál er óþolandi fyrir Austfirðinga. Hjá þeim voru byggðar upp væntingar sem engin innstæða reyndist fyrir. Stóriðjuáform á Austurlandi eru eina ferðina enn komin á upphafsreit.

Herra forseti. Ríkisstjórnin er eins og hástökkvari sem hefur það ekki yfir 1,20 og lætur hækka rána í 2,40.