Breytt staða í álvers- og virkjanamálum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 16:11:51 (5824)

2000-04-03 16:11:51# 125. lþ. 87.95 fundur 422#B breytt staða í álvers- og virkjanamálum# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[16:11]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Nú er ljóst að Alþingi var leitt á villigötur í haust við afgreiðslu þáltill. um Fljótsdalsvirkjun. Austfirðingar hafa verið blekktir og hjá þeim vakin fölsk sýn í atvinnumálum. Það er ekki trúverðugur málflutningur að kenna fjárfestum um brigðir þó að þeir hafi ekki viljað ganga með ríkisstjórninni í gapastokkinn. Ætli þeir séu ekki bara sælir með að hafa fallið í áliti hjá hæstv. iðnrh.?

Herra forseti. Ætli ríkisstjórnin öll hafi ekki fallið í áliti hjá Austfirðingum, Alþingi og þjóðinni eins og hún hefur haldið á þessu máli? Austfirðingar hafa verið blekktir. Reynt hefur verið að telja þeim trú um að stóriðja og stórvirkjanir ættu að vera framtíðarsýn þeirra. Engir aðrir valkostir hafa verið kynntir. Ég tel að ríkisstjórnin skuldi, ekki aðeins Austfirðingum heldur og Alþingi og þjóðinni allri, aðra valkosti fyrir Austurland í atvinnuuppbyggingu, aðra stóra, virka og öfluga valkosti eins og staðan er nú.

Herra forseti. Nú er þörf á að leggja stóraukið fjármagn til átaks í vegagerð, styrkja samgöngur innan byggðarlagsins. Það má flýta jarðgangagerð, byrja jafnvel í haust sé þess nokkur kostur. Hleypa má auknum krafti í ferðaþjónustuna með auknu fjármagni og nýrri markaðssókn. Nýta þarf enn betur, árið um kring, þá náttúruauðlind sem ferðaþjónustan er. Efla má Egilsstaðaflugvöll sem raunverulegan millilandaflugvöll og stýra þangað millilendingum í vöru- og farþegaflugi.

Það er svo margt hægt að gera, herra forseti, ef vilji og sýn er fyrir hendi. Þá sýn skuldar hæstv. ríkisstjórn og Alþingi Austfirðingum.