Fjármálaeftirlit

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 17:11:44 (5838)

2000-04-03 17:11:44# 125. lþ. 87.3 fundur 199. mál: #A fjármálaeftirlit# (breyting ýmissa laga) frv. 11/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[17:11]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, fyrir þessar upplýsingar. Mér finnst það skipta mjög miklu máli að þegar fram hafa verið lögð ítarleg og vel unnin frv. eins og þau sem Samfylkingin vann á haustdögum og lagði inn sem fyrstu mál sín í upphafi þings, þá séu þau skoðuð samhliða og ég met það að bæði málin hafa verið opin þegar um þau var fjallað í nefndinni.

Ég tek eftir þessu nýja ákvæði um févíti og líka því að dregið var úr, að því er mér skilst, fjárhæðum. Við töldum að þarna þyrftu að vera öflug úrræði og væntanlega mun afstaða okkar í því efni koma betur fram hjá talsmanni Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn., Jóhönnu Sigurðardóttur. En mér finnst mjög mikilvægt að brtt. kom fram um verklagsreglurnar og að skýrsla verði lögð fram um störf Fjármálaeftirlitsins.

Þá get ég auðvitað ekki stillt mig um að rifja það upp að afskaplega var það mikilvægt innlegg í bæði eftirlit og umfjöllun um stöðu á samkeppnismála- og fyrirtækjamarkaði þegar Samkeppnisstofnun skilaði stóru skýrslunni sinni um rekstrar- og eignartengsl á sínum tíma, og hvað það er mikið umhugsunarefni fyrir okkur á Alþingi að fyrirmæli skuli þurfa að koma héðan hverju sinni og að ekkert skuli hafa gerst í þeim efnum í sex ár og að nú skuli það taka kannski eitt eða tvö ár í viðbót að fá slíka skýrslu. Ég held að það sé eitt öflugasta tæki okkar til að vera með öflugt eftirlit á markaði og fylgjast með hvernig markaðurinn er að þróast.

Ég þakka fyrir þessar upplýsingar.