Fjármálaeftirlit

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 17:13:43 (5839)

2000-04-03 17:13:43# 125. lþ. 87.3 fundur 199. mál: #A fjármálaeftirlit# (breyting ýmissa laga) frv. 11/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[17:13]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er tekið til 2. umr. frv. til laga um breytingu á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit, en það frv. er mjög mikilvægt til þess að ná utan um það að styrkja eins og kostur er leikreglur á fjármálamarkaðnum og styrkja eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins með eftirlitsskyldum aðilum.

Herra forseti. Ég tel að frv. hafi batnað mjög í meðförum hv. efh.- og viðskn. að flestu leyti þó að ég lýsi óánægju minni með að þau ákvæði sem fram koma í 4. og 5. gr., sem eru þau úrræði sem Fjármálaeftirlitið hefur þegar ekki er farið að tilmælum þess um úrbætur, eru veikt verulega. En ýmis ákvæði hafa þó komið fram í skoðun nefndarinnar sem hafa bætt frv. mjög.

[17:15]

Hér voru tveir síðustu ræðumenn að ræða meðferð efh.- og viðskn. á því frv. sem Samfylkingin lagði fram um sama efni og ég verð að segja að mér finnst frv. Samfylkingarinnar hafa fengið ágætis umfjöllun í efh.- og viðskn. og þakka fyrir það. Eins og kom fram hjá hv. formanni nefndarinnar hefur að sumu leyti verið tekið tillit til þeirra atriða sem Samfylkingin lagði til. Lögð var vinna í það af hálfu nefndarinnar og nefndarritara að útbúa minnisblað þar sem mismunurinn á þessum tveimur frv., stjfrv. og frv. Samfylkingarinnar, var tekinn saman.

Ef ég fer aðeins yfir það sem út af stendur í því efni, þá er það í fyrsta lagi að í frv. Samfylkingarinnar var lagt til að kveðið verði skýrar á um stjórnsýslulega stöðu Fjármálaeftirlitsins og lögð áhersla á að Fjármálaeftirlitið sé sjálfstæð og óháð ríkisstofnun sem lúti sérstakri stjórn.

Á þessu er ekki tekið í frv. en ég tel afar mikilvægt að allt sé gert og líka í lögum til að undirstrika sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins sem hefur auðvitað afar mikla þýðingu og að sú stofnun lúti ekki í einu eða neinu boðvaldi ráðherra. Ég lít reyndar svo á að þó að það standi ekki beinum orðum í frv. þá sé það skilningur allra að sjálfstæði stofnunarinnar sé engu að síður með þeim hætti að stofnunin lúti ekki boðvaldi ráðherra.

Við höfum líka lagt til að viðskrh. verði skylt að gefa Alþingi skýrslu á hverju ári um störf Fjármálaeftirlitsins. Á því er tekið í þeirri brtt. sem nefndin flytur og þar er tiltekið að ráðherra geti annaðhvort lagt fram skýrslu um starfsemi Fjármálaeftirlitsins eða látið yfirlit um starfsemi þess fylgja með frv. til breytinga á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sem gert er ráð fyrir að þurfi að breyta á hverju haustþingi. Ég tel þetta ákvæði afar mikilvægt. Þetta gefur þingmönnum tilefni og tækifæri til að ræða almennt um fjármálamarkaðinn, stöðu hans og eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins og að fara yfir það hvort einhverju þarf að breyta í lögum eða reglugerð til þess að styrkja enn frekar stoðir eftirlitsins.

Síðan vorum við að ýmsu leyti með önnur ákvæði sem lúta að þeim tækjum sem eftirlitið hefur ef eftirlitsskyldir aðilar verða ekki við tilmælum um úrbætur og ætla ég aðeins að fara nánar inn á það í máli mínu á eftir.

Ég ritaði undir nál. ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur með ákveðnum fyrirvara. Í rauninni má segja að þeir fyrirvarar séu þríþættir, þ.e. þeir lúta að þremur efnisatriðum í frv. Í fyrsta lagi, eins og ég nefndi áðan, hefðum við viljað sjá tekið á sjálfstæði stofnunarinnar með óyggjandi hætti í frv. og í lögunum.

Í annan stað finnst mér það síður en svo til bóta að breyta þeim ákvæðum sem lúta að dagsektum og stjórnvaldssektum og draga verulega úr þeim, en í frv. var lagt til að dagsektirnar gætu numið frá 50 þús. kr. til 5 millj. kr. á dag og að heimilt væri að ákveða það sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri hins eftirlitsskylda aðila og stjórnvaldssektir, sem mér fannst margir af hinum eftirlitsskyldu aðilum hafa ýmislegt við að athuga og höfðu raunar allt á hornum sér í því efni, gátu numið samkvæmt frv. 50 þús. kr. til 10 millj. kr. En samkvæmt þeim brtt. sem hér eru lagðar til er verulega dregið úr þessum fjárhæðum að beiðni eftirlitsskyldu aðilanna og það finnst mér slæmt. Engu að síður er þetta áfangi á þeirri leið að styrkja Fjármálaeftirlitið þannig að þeir hafi þau tæki sem til þarf. En við skulum sjá hvernig þessi ákvæði reynast og það gefst þá tækifæri síðar til að breyta þeim og herða á þessum atriðum.

Þriðja atriðið sem ég vildi nefna varðar athugasemdir sem fram hafa komið hjá Blaðamannafélagi Íslands og snertir þagnarskylduákvæðið eða í raun og sanni aðgang að gögnum og upplýsingum hjá Fjármálaeftirlitinu. Ég get tekið undir það sem fram kemur hjá Blaðamannafélagi Íslands um rökstuðning þeirra fyrir því að verið sé að hefta að verulegu leyti aðgang þeirra að Fjármálaeftirlitinu, eðlilegan aðgang að mínu viti. Ég vil vitna, herra forseti, í umsögn Blaðamannafélagsins. Þeir hjá félaginu vitna í það að felld er brott í frv. --- reyndar var gerð tillaga um það, herra forseti, að fella út ákveðna tilvísunarsetningu sem var í upplýsingalögunum sem þeir töldu veikja verulega þann kafla upplýsingalaganna sem sneri að gögnum um einka- og fjárhagsleg málefni. Efh.- og viðskn. ákvað að setja þær tilvísanir aftur inn í upplýsingalögin. Þau standa því óbreytt að því er þetta varðar, en engu að síður var það niðurstaða meiri hluta efh.- og viðskn. að taka inn ákvæði sem lýtur að því að þagnarskylduákvæðið í lögum um viðskiptabanka framlengist með þeirri brtt. sem hér er lögð til til Fjármálaeftirlitsins.

Um þetta segir Blaðamannafélag Íslands, með leyfi forseta:

,,Í 5. grein upplýsingalaganna, þar sem fjallað er um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna, segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gildi um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.`` --- Þetta er auðvitað lykilsetning, herra forseti, ,,sömu takmarkanir gildi um aðgang að gögnum er varðar mikilvæg fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila``. Enn fremur segir í umsögn Blaðamannafélagsins: ,,BÍ telur að með þessu ákvæði sé staðinn fullur vörður um þá hagsmuni sem ætlunin er að vernda með 6. grein þess frumvarps sem efh.- og viðskn. hefur til meðferðar. Það er mikilvægt grundvallaratriði upplýsingalaga að í hverju máli fari fram hagsmunamat þar sem hinir tilgreindu hagsmunir, sem njóta verndar samkvæmt 5. grein (eða vegna almannahagsmuna samkvæmt 6. grein), eru vegnir saman við þá almannahagsmuni sem upplýsingarétturinn stendur vörð um. Mat á þessum hagsmunum annast úrskurðarnefnd um upplýsingamál og má skjóta úrskurðum hennar til dómstóla. 6. grein frumvarpsins virðist ætlað að breyta í grundvallaratriðum þessu ferli þannig að Fjármálaeftirlitið megi einungis láta upplýsingar í té á grundvelli úrskurðar dómara og þá einungis í þágu opinberrar rannsóknar eða við meðferð dómsmáls.``

Ég tel að ákvæði upplýsingalaganna séu nægjanleg til að vernda þá hagsmuni sem snúa að viðskiptahagsmunum fyrirtækja eða annarra lögaðila. Ef uppi er álitaefni í þeim efnum má með þessu ákvæði, eins og það er í upplýsingalögunum, skjóta ágreiningnum til úrskurðarnefndar sem vegur og metur þá almannahagsmuni sem þarna er um að ræða, og sem upplýsingarétturinn á að standa vörð um annars vegar og síðan viðskiptahagsmunir fyrirtækja og annarra lögaðila.

Herra forseti. Ég mun því ekki greiða atkvæði með þeirri brtt. sem meiri hluti hv. efh.- og viðskn. leggur til varðandi það að framlengja þagnarskylduákvæði viðskiptabankalaganna yfir á Fjármálaeftirlitið, heldur tel ég að ákvæði upplýsingalaganna séu nægilega trygg og með þeim sama rökstuðningi eins og Blaðamannafélag Íslands teflir fram í umsögn sinni.

Að öðru leyti, herra forseti, er ég í það heila tekið bærilega sátt við frv. sem kemur hér til umræðu eftir meðferð efh.- og viðskn. á málinu og tel að með því frv., sem væntanlega verður fljótlega að lögum, hafi staða Fjármálaeftirlitsins styrkst til muna og að hún sé eftir þessa lagasetningu miklu færari um að taka á álitaefnum sem upp koma á fjármálamarkaðnum.