Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 18:43:20 (5844)

2000-04-03 18:43:20# 125. lþ. 88.6 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (lækkun gjalda) frv. 8/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 125. lþ.

[18:43]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir frv. því sem hér er til umræðu um fækkun vörugjaldsflokka úr þremur í tvo á báðum tegundum bifreiða, þ.e. bensín- og dísilbifreiðum. Þessir flokkar voru áður fimm, fyrir nokkrum árum var þeim fækkað niður í þrjá og hér er komin tillaga um að fækka þeim í tvo. Eflaust eru þeir til sem mundu telja að aðeins ætti að hafa einn vörugjaldsflokk.

Það er alveg óumdeilt, herra forseti, að mismunandi flokkar þýða neyslustýringu og á sínum tíma birtist í mismunandi vörugjaldsflokkum vilji til að taka hærra gjald af dýrari bifreiðum. Hér er lagt til að í stað þess að vera með 30, 40 og 65% vörugjald á mismunandi stærðum bifreiða eða mismunandi vélarafli þá verði nú einungis tveir flokkar, 30 og 45%.

Það er auðvitað alltaf álitamál hvenær rétt er að gera breytingar af þessu tagi. Það er umhugsunarefni að við höfum búið við viðkvæmt efnahagsástand mánuðum saman og ríkisstjórnin hafnaði því sem var að gerast þar til þensla var komin á hættustig. Ekki var brugðist tímanlega við þeirri þenslu sem í uppsiglingu var og uppskeran reyndist allt að 6% verðbólga.

[18:45]

Herra forseti. Það er líka stutt síðan að Seðlabankinn var með yfirlýsingar um að ekki hafi verið nóg að gert af hálfu ríkisstjórnarinnar og Samfylkingin hefur verið þeirrar skoðunar að brugðist hafi verið við of seint. Við hefum ekki þurft að lenda í þessu verðbólgustigi sem raun bar vitni.

Þess vegna er aðalfyrirvari Samfylkingarinnar um það hvort þetta frv. virki hugsanlega sem eldsmatur inn í efnahagsástandið, að það setji nýjan kipp í viðskiptalífið, auki þenslu og bæti á viðskiptahallann. Eru menn tilbúnir til þess að kaupa breytingu á þessum vörugjaldsflokkum því verði ef svo reynist?

Önnur hlið á þessu máli er að sennilega er það hagkvæmasta leið ríkisstjórnar til að lækka vísitölu að fara þessa leið með breytingu á vörugjaldi bifreiða enda er ljóst að menn búast við því að þetta lækki vísitölu um u.þ.b. um 0,2%, þ.e. framfærsluvísitöluna. Maður hefur auðvitað velt því fyrir sér hvers vegna ríkisstjórnin kom með þessa vörugjaldsflokkabreytingu núna. Hvað er það nákvæmlega núna sem veldur því að menn finna það út að þeir eru tilbúnir að verða við ítrekuðum óskum innflytjenda og þeirra sem starfa við þessi viðskipti? Eða liggur eitthvað annað að baki? Ég átta mig ekki á því en ég reikna með að þessi mál skýrist við yfirferð málsins í nefnd.

Það er erfitt að sjá við yfirlestur frv. hvaða afleiðingar það hefur. Hæstv. fjmrh. setur það fram í greinargerð að hugsanlega geti hér verið um 300 eða 350 millj. kr. tekjutap að ræða. En ég er sjálf þeirrar skoðunar að það sé alls óvíst að nokkurt tekjutap verði hjá ríkissjóði. Það má geta sér þess til að þessi breyting geti orðið hvati þess að fólk fari í endurnýjun á bifreiðum sínum. Ákveðnar stærðir á bifreiðum lækka mjög mikið og auðvitað fýsir marga bæði að kaupa sér betri bifreiðar og ekki síst það sem hæstv. fjmrh. nefndi, að eiga þess nú kost að kaupa sér öruggari bifreiðar. Ég geri ekki lítið úr þeim þætti.

Hins vegar hef ég tekið eftir því að menn hafa búist við u.þ.b. 10% samdrætti í bifreiðaviðskiptum miðað við árið 1999 sem reyndar var toppár í viðskiptum af þessu tagi og e.t.v. dregur frv. úr þeim mun sem menn áætluðu að þarna yrði. Það þarf ekki mikla aukningu í sölu frá því sem gert hefur verið ráð fyrir og hefur væntanlega verið gert ráð fyrir varðandi fjárlög ríkisstjórnarinnar til þess að auknar tekjur af virðisaukaskatti vegi upp þessa lækkun. Alla vega ber ég fram þá spurningu til hæstv. fjmrh. hvort ekki megi gera ráð fyrir því að ef þessi breyting hefur áhrif til aukningar á viðskiptum með bifreiðar, sérstaklega með nýjar bifreiðar og þá í þá átt að menn eru að kaupa dýrari bifreiðar, og þó að afsláttur sé á ákveðnum tegundum bifreiðanna, þá gerist það strax við aukin viðskipti að þarna komi meiri tekjur inn. Mér finnst áhugavert að fá álit hæstv. ráðherra á þessu.

Aðalfyrirvari okkar er, eins og ég hef áður sagt, áhrifin á þenslu þó einnig vakni spurningar um hvert skattafslættinum sé beint og það ætlum við auðvitað að skoða við yfirferð málsins í nefnd. Sumt af því sem þarna er lagfært er afdráttarlaust til bóta. Það er hægt að nefna breytingar á vörugjaldi á bifreiðum fyrir fatlaða og að hætt er að mismuna eftir landshlutum vörugjaldi á vélsleðum sem var náttúrlega farið að verða mjög úrelt sjónarmið. Því er enginn vafi á því að það er verið að taka þarna á ýmsum þáttum sem skipta máli.

Herra forseti. Ég hef flutt tillögu nokkrum sinnum á Alþingi á liðnum árum um að lækka vörugjald af öryggisbúnaði svo sem eins og ABS öryggisbremsum og talið að í því fælust miklar úrbætur og að verið væri að koma þá til móts við fólk sem er kannski að kaupa sér ódýrari bifreiðar en vill vera með þennan öryggisbúnað sem skiptir mjög miklu máli. Hér á borð þingmanna hefur verið dreift þáltill. um endurskoðun gjalda á svokallaða loftpúða stundum nefnda líknarbelgi. Enn má nefna einn annan öryggisþátt sem eru bifreiðar með fjórhjóladrifi. Fjórhjóladrif skiptir orðið miklu sem útbúnaður bifreiða ekki síst í þungri og varhugaverðri vetrarfærð eins og við þekkjum frá þessum vetri.

Það er full ástæða til að nefna þetta vegna þess að hæstv. fjmrh. nefndi að í þessari breytingu fælist að fólki væri gert kleift að kaupa bifreiðar betur útbúnar og með þessum öryggisbúnaði. En mér mundi finnast það skipta miklu máli að ráðherrann skoðaði það að gera fólki kleift að kaupa hinar minni bifreiðar sem ekkert hreyfast í verði með þessum búnaði því að hann er mjög dýr þegar hann bætist ofan á almennt verð bifreiða.

Á það er bent að með þessu frv. sé verið að stíga skref í átt að minni neyslustýringu og að fólki sé auðveldað að kaupa öruggari og betur búnar bifreiðar. Um það er deilt hvort það eigi að hætta algjörlega neyslustýringu og hvort það eigi kannski með tímanum að verða bara einn vörugjaldsflokkur. Það er líka full ástæða til að benda á það sem ég hef hér gert, að mörg öryggistæki þyrftu að vera líka í hinum ódýrari bifreiðum. En við eigum eftir að fara yfir hvað í þessu felst og hvaða bifreiðar eiga í raun hlut að máli, þ.e. hvaða bifreiðagerðir breytast mest, og þá sér maður miklu betur hvað í þessu frv. felst.

Ég geri mér alveg grein fyrir því sem ráðherrann hefur haldið fram að það hefur kannski ekki verið flutt mikið inn af bifreiðum í hæsta vörugjaldsflokki nema þá af einstaklingum. En það hlýtur að verða mjög mikil aukning í innflutningi bifreiðaumboðanna á stærri bifreiðum sem nú fara eingöngu í 45% flokk og það hlýtur að vera hluti af því sem hér er verið að gera.

Mér finnst skipta máli að við skoðum hvort við komum með þessum breytingum til móts við almennt launafólk og gefum því fyrst og fremst tækifæri til að kaupa öruggari bifreiðar á sambærilegu verði og ódýrari bifreiðar voru áður eða hvort hér er aðallega um ívilnun að ræða til þeirra sem hafa efni á að kaupa mjög dýrar bifreiðar og jeppa. Auðvitað skiptir það máli í skoðun á því sem hefur verið að gerast og hvenær manni finnst ástæða til að fara út í breytingar í ríkisfjármálunum til hagsbóta fyrir ákveðna hópa.

Virðulegi forseti. Ég átta mig heldur ekki á því hvort í frv. felast ívilnanir hvað varðar dísilbifreiðar eða hvort hlutfallið breytist eitthvað á milli dísilbifreiða og bensínbifreiða hvað varðar vörugjöld. Kannski er tilflutningurinn algjörlega tilsvarandi þannig að hlutfallið á milli vörugjaldsálagningarinnar á hvorum bifreiðaflokknum fyrir sig sé tilsvarandi. Ég hef áhuga á að vita það af því að í frv. felst að ekki verður lengur gerður greinarmunur á bensín- og dísilbifreiðum. Það kemur fram í greinargerð með frv.

Sjálf hef ég talið að dísilbifreiðar séu minni mengunarvaldur og hef lengi furðað mig á því af hverju ekki sé ívilnað hvað það varðar eða fólk hvatt á einhvern hátt til þess að velja fremur dísilbifreiðar. Ég vil spyrja ráðherrann hvort þarna sé algjörlega jöfnuður eða hvort bensínvélarnar séu orðnar svo góðar að það sé kannski ekki marktækur munur lengur á því hvort verið sé að brenna bensíni eða dísilolíu.

Mér finnst það skipta máli í umfjöllun um þetta mál sem á að skoða í nefnd strax í kvöld að hæstv. fjmrh. hefur reynt að verða við óskum okkar um þær upplýsingar sem hann hefur getað aflað strax á þessum morgni. Þess vegna munum við fara vel yfir þetta mál í nefnd og ekki taka efnislega afstöðu til frv. og innihalds þess fyrr en að þeirri yfirferð lokinni. Ég hef þó sett fram nokkrar athugasemdir hér og ákveðna fyrirvara Samfylkingarinnar. En ég ætla ekki að líta svo á að við höfum á neinn hátt bundið okkur hvað varðar afgreiðslu málsins. Við munum taka afstöðu til þess efnislega þegar við höfum farið yfir málið í nefnd og fengið þær upplýsingar sem við köllum eftir þar.