Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 18:55:27 (5845)

2000-04-03 18:55:27# 125. lþ. 88.6 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (lækkun gjalda) frv. 8/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 125. lþ.

[18:55]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum og hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir því.

Eins og hæstv. ráðherrann kom inn á er vissulega verið að breyta þarna neyslustýringu eða færa til áherslur í gegnum skatta á hvaða bílar eru keyptir. En megintilgangur frv., herra forseti, er nú kannski sá sem hæstv. ráðherrann aðeins tæpti á. Hann hefði kannski bara átt að kveða hreint upp úr með það. Það er náttúrlega þessi verðbólga og óstöðugleiki á markaðnum hér varðandi ríkisfjármálin, það er verðbólgan í rauninni sem er vandinn og viðskiptahallinn er vandinn sem verið er að fást við. Með þessum tillögum sem hér eru lagðar fram er náttúrlega meginmarkmiðið og vonin að það takist að slá aðeins, þó það sé ekki nema um 0,2%, á vísitöluna.

Það bara leiðir hugann, herra forseti, að þessari vá sem við stöndum frammi fyrir við stjórn peningamála, og ég vil draga hér fram, og birtist m.a í þessu frv. Þá er kannski líka hin veika hlið athugasemdanna með frv., frá fjmrn. m.a., hvað lítið er spáð í áhrif þess á markaðnum. Leiðir þetta til aukins innflutnings á bílum og leiðir þetta til þess að viðskiptahallinn muni aukast? Við öllum aðgerðum sem miða að því að auka innflutning og sem leiða til aukins viðskiptahalla, hljótum við að vera á varðbergi gagnvart. Viðskiptahallinn sem við stöndum núna frammi fyrir er um 50 milljarðar á þessu ári --- tala á því bili hefur verið nefnd --- og er þetta þá líklega þriðja árið í röð með geigvænlegum viðskiptahalla, meiri en hægt er að búast að land eins og Ísland ráði við. Það er höfuðvandinn.

Þess vegna, herra forseti, hefði átt að athuga mjög gaumgæfilega hvaða áhrif þessi aðgerð hefði á innflutning og aukinn viðskiptahalla. Því að með þessu er verið að skapa nýjan markað. Það hefur verið talið að það væri komin viss mettun á bílamarkaðnum nú við þessar aðstæður varðandi stærð á bílum og gerð og því þá m.a. stýrt í gegnum tolla. En með því að breyta tollasamsetningunni nú þá er verið að skapa nýjan markað fyrir nýjan innflutning. Það hefði átt að liggja fyrir þó ekki væri nema örlítil tilvitnun í reynsluna frá síðustu tollalækkunum á bílum, varðandi innflutning þeirra.

Ég dreg þetta fram hér, herra forseti, því að þetta er svo alvarlegt mál og viðskiptahallinn og verðbólgan sem við nú stöndum frammi fyrir er alvarlegasta ógnunin við stöðugleikann og í rauninni við sjálfstæði íslensks efnahagslífs.

Það skyldi þó ekki vera að þessi fregn um 10--15% samdrátt á innflutningi bíla væri að hvetja til þess að auka innflutning því að þverstæðurnar eru þær að dragist bílainnflutningur saman þá lækka tollar, gjöld og vörugjöld og þar af leiðandi minnka líka tekjur ríkissjóðs. Ef bílainnflutningur dregst saman um 10 eða 15% yfir árið þá er það væntanlega töluverð skerðing á tekjum ríkissjóðs. Ef þetta er aðgerð til þess að viðhalda eða skapa nýjan markað og nýja eftirspurn eftir bílum til þess eins að réttlæta það að viðhalda tekjum ríkissjóðs þá tel ég þetta vera varhugaverða leið.

Ég dró þetta fram, herra forseti, þrátt fyrir leiðréttingar, sumar ágætar og sumar vafasamar varðandi tolla á bílum, því áfram er jú verið að stýra neyslunni með tollum og ekkert er óeðlilegt við það. Það væri ástæða til að stýra því með tollum að bílar sem væru búnir betri mengunarútbúnaði, sem menguðu minna, eins og hæstv. fjmrh. minntist á, yrðu meira keyptir. Það er hægt að gera í gegnum tolla og hefði kannski átt að skoða það jafnframt þessum breytingum sem hér eru lagðar til.

Dýrari bílar lækka. Þá gefst vissulega fleirum tækifæri til að kaupa stærri bíla, en tekjulægsta fólkið þarf áfram að kaupa þessa litlu bíla.

Þetta mál þarf hraða meðferð í þinginu. Við gerum okkur grein fyrir því. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs mun ekki tefja framgang þessa máls. Hann mun hlutast til um að það fái fljóta afgreiðslu. En ég bendi ítrekað á að ein meginrök frv. eru að reyna að slá á þensluna. Og hafi þetta frv. og afleiðingar þess áhrif á aukinn innflutning og aukinn viðskiptahalla þá tel ég það varhugavert. Það á að nýta hvert tækifæri sem bitnar mjúklega á landsmönnum til þess að draga úr viðskiptahallanum. Það er brýnasta málið sem við nú stöndum frammi fyrir í efnahagsmálum.