Álbræðsla á Grundartanga

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 13:38:07 (5848)

2000-04-04 13:38:07# 125. lþ. 89.5 fundur 371. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (fasteignaskattur) frv. 12/2000, Frsm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[13:38]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, nr. 62/1997.

Forsenda þessa frv., herra forseti, byggir á því að náðst hefur samkomulag um að auka framleiðslugetu álversins á Grundartanga úr 60 þús. lestum á ári í 90 þús. lestir. Frv. byggir á samkomulagi vegna þessa þar sem m.a. er kveðið á um greiðslu byggingarleyfisgjalds, gatnagerðargjalds og fasteignaskatts.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið ýmsa mæta gesti á sinn fund og mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt. Í vinnslu nefndarinnar og í viðræðum við ýmsa gesti sem á fund nefndarinnar komu, þar á meðal fulltrúar sveitarfélaga í nágrenni Grundartanga, komu fram ýmis þau sjónarmið sem vert er að vekja athygli á og er vísað til m.a. í nál. hv. iðnn.

Tveir hreppar, Hvalfjarðarstrandarhreppur og Skilmannahreppur, njóta fasteignagjalda og opinberra gjalda af þeim stóru mannvirkjum sem á Grundartanga eru, en það sjónarmið kom fram hjá öðrum nágrannasveitarfélögum, svo sem Akranesi, að fjölmargir starfsmanna Grundartanga búa á Akranesi og það sveitarfélag sem og önnur hafa lagt í verulegan kostnað vegna þeirrar stækkunar sem felst í frv. Þeir telja með öðrum orðum að það geti allt eins átt við að fasteignagjöldin renni til fleiri sveitarfélaga en þeirra tveggja sem áður voru nefnd. Nefndin tekur í sjálfu sér undir það sjónarmið og beinir því til hæstv. ríkisstjórnar að endurskoða gildandi lög um stórvirki á borð við álverksmiðjur, hvort rétt sé að einungis eitt eða tvö sveitarfélög njóti þeirra opinberu gjalda sem af þeim koma, enda má nokkuð ljóst vera að starfsmenn slíkra fyrirtækja dreifast um stærra svæði en í tiltölulega litlum sveitarfélögum.

Nefndin vekur athygli ríkisstjórnarinnar á þessu og beinir því til hennar að taka þessi mál til endurskoðunar en nefndarmenn gera sér fyllilega grein fyrir því að hér er ekki um einfalt mál að ræða en telur vert að það verði tekið til skoðunar.

Einnig kom fram það sjónarmið, herra forseti, að með rökum megi halda því fram að núverandi fyrirkomulag dragi í rauninni úr vilja minni sveitarfélaga til að sameinast öðrum nágrannasveitarfélögum þar sem þau njóta tiltölulega hárra tekna af svo stórri starfsemi sem raun ber vitni.

Herra forseti. Þetta vildu nefndarmenn í hv. iðnn. draga fram en leggja til að frv. verði eigi að síður samþykkt óbreytt. Undir þetta rita allir nefndarmenn hv. iðnn.