Álbræðsla á Grundartanga

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 13:45:03 (5850)

2000-04-04 13:45:03# 125. lþ. 89.5 fundur 371. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (fasteignaskattur) frv. 12/2000, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[13:45]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason, formaður iðnn., hefur gert ágæta grein fyrir nál. sem hér er til umræðu. Um þetta mál spunnust mjög miklar umræður í iðnn. eins og eðlilegt er m.a. vegna þess að fasteignaskattar eru í raun óréttlát skattheimta, ekki bara þegar fjallað er um þetta einstaka mál heldur þegar við fjöllum um álagningu fasteignaskatta almennt. Eins og hæstv. forseti og þingheimur veit miðast álagningin við mat á fasteignum hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað mikill munur á verði á fasteignum í höfuðborginni og úti á landsbyggðinni. Við megum hins vegar ekki gleyma að hér er um einn af megintekjustofnum sveitarfélaga að ræða en fasteignagjöldin skiptast í álagningu á viðkomandi fasteignir og síðan þjónustugjöld, sem auðvitað eru mjög réttlát gjöld. Þjónustugjöld greinast í vatnsskatt, holræsagjöld og síðan sorphirðugjöld sem standa straum af útlögðum kostnaði viðkomandi sveitarfélaga og það er mjög brýnt að við finnum lausn á þessu máli. Við megum ekki gleyma því að hér er um einn af megintekjustofnum sveitarfélaga að ræða en skatturinn er afar óréttlátur.

Þess eru líka dæmi að fólk búi í viðkomandi sveitarfélögum án þess að greiða fasteignaskatt, oft á tíðum embættismenn. Fyrirtæki eins og Rarik greiðir ekki fasteignaskatta í byggðarlögum þar sem það er með starfsemi. Hins vegar greiðir það þjónustugjöld þar, en flest önnur ríkisfyrirtæki greiða þar fasteignaskatta.

Það er eins og fram hefur komið ákaflega óréttlátt að fasteignaskatturinn renni, þegar um virkjanir eða stóriðju er að ræða, beint til viðkomandi sveitarfélaga. Það má í raun og veru segja og væri hægt að sanna að sveitarfélögin beri ekki mikinn kostnað af þeim framkvæmdum. Því teljum við í nefndinni og vorum mjög sammála um það, að þessi mál bæri að skoða til hlítar. Við vitum reyndar að ríkisstjórnin --- það er í stjórnarsáttmála --- áætlar að endurskoða álagningu fasteignagjalda á landsvísu. Eins og ég hef lýst hér er það mjög nauðsynlegt.

Hins vegar er ekki hægt að taka þetta einstaka mál út af fyrir sig og dreifa fasteignaskattinum af stækkuninni á Grundartanga á fleiri sveitarfélög en hér um ræðir. Það er ekki hægt að taka þetta eina verkefni út af fyrir sig. Það er auðvitað mjög óréttlátt en hins vegar er brýnt að móta heildstæða stefnu í þessum efnum.