Álbræðsla á Grundartanga

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 13:48:42 (5851)

2000-04-04 13:48:42# 125. lþ. 89.5 fundur 371. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (fasteignaskattur) frv. 12/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er e.t.v. ekki miklu við það að bæta sem félagar mínir úr hv. iðnn. hafa sagt hér við umræðuna. Þó vil ég benda á hversu sérstakt málið er. Hér er frv. til laga varðandi álvinnslu á Grundartanga þar sem fest er í lög hvernig borga eigi fasteignaskatt af viðbótarframkvæmd við álverið á Grundartanga. Það var sett í lög hvernig borga ætti fasteignaskatt af álverinu þegar það var reist samkvæmt samningi sem þá var unninn. Nú er tekin ákvörðun um stækkun og félagið á viðræður við stjórnvöld og sveitarstjórnirnar í Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi og fleiri um breytingarnar á samningnum. Breytingarnar eru þær að kveða á um hlutfallið af áætlaðri stærð viðbótarinnar og verðmæti hennar. Þetta er mjög óvanalegt vegna þess að um fasteignaskattana gilda almenn lög hjá sveitarfélögunum. Þarna er farið út í að kveða á um fasteignaskattana með lögum og ef álverið breytist og stækkar þá þarf að setja ný lög fyrir viðbótarskattinn. Þetta er mjög óvanalegt og full ástæða til þess að þingmenn geri sér grein fyrir því. Þess vegna er þetta mál sérstakt.

Það er líka mismunandi hvernig þessi stóriðjufyrirtæki greiða til samfélagsins. Ég get bent á að álverið í Straumsvík borgar ekki fasteignaskatt. Hins vegar greiðir álverið í Straumsvík sérstakt framleiðslugjald. Einnig mætti velta því fyrir sér hvort skynsamlegt sé að gjöld sem stóriðjufyrirtæki greiða skuli vera af mismunandi toga. Eitt borgar fasteignaskatt og annað ekki, annað borgar framleiðslugjald og hitt ekki.

Um leið og við fjöllum um þetta mál og fáum til viðtals í iðnn. fulltrúa sveitarfélaganna í nágrenni álversins og fulltrúa frá Akranesbæ þá kemur strax upp umræða um búsetu, þjónustu og gjöld sem renna til lítils sveitarfélags. Ábending okkar í iðnn. lýtur að því að um verulega fjármuni er að ræða. Þegar opinber gjöld af stóriðjuveri renna til svo lítilla sveitarfélaga og svo miklir hagsmunir eru í húfi dregur það úr vilja hinna litlu ríku sveitarfélaga til að sameinast hinum litlu fátæku. Það kom fram í umræðunni að þetta er staða sem menn þekkja víða á landinu.

Hins vegar er ljóst að iðnn. getur ekki lagt það til að menn fari öðruvísi með fasteignaskatta í einu sveitarfélagi en öðru. Álagning fasteignaskatts er afdráttarlaus réttur viðkomandi sveitarfélags og byggist á þjónustu við búsetu. Fasteignaskattur er alls óháður því hvort fólk vinnur í sveitarfélaginu eða ekki. Þannig greiði ég í Kópavogi fasteignaskatt óháð því hvar ég vinn og sama gildir um aðra íbúa Kópavogs. Hins vegar er líka ljóst að margir í Kópavogi og Reykjavík starfa hjá álverinu í Straumsvík þrátt fyrir að tekjur af álverinu í Straumsvík renni til Hafnarfjarðar. Þetta vita þingmenn líka.

Þegar við stöndum frammi fyrir því að stóriðjufyrirtæki er staðsett í litlu sveitarfélagi og starfsfólk fyrirtækisins er ekki búsett í sveitarfélaginu sem fær þó tekjur af fyrirtækinu sjáum við mismunun og mismunandi möguleika sveitarfélaga sem liggja hlið við hlið til að þjóna íbúum sínum. Þetta ræddum við í iðnn. í ágætu bróðerni og þar var bent á að starfandi er tekjustofnanefnd á vegum félmrn. Sú nefnd skoðar gildandi tekjustofna og hvaða breytingar þurfi að gera í ljósi breyttra sveitarfélaga með tilliti til jöfnunar og hlutverks þeirra.

Ég vil minna á að áður fyrr borguðu stórfyrirtæki svokallað landsútsvar. Landsútsvar rann til ríkisins en ákveðinn hluti þess til sveitarfélagsins þar sem stórfyrirtækið var staðsett. Þetta hefði átt við um stóriðjufyrirtækin í dag en átti þá m.a. við um stóru olíufyrirtækin. Þessu var breytt og sveitarfélögin sátu að því að fá tekjurnar af þeim fyrirtækjum sem staðsett voru innan þeirra marka.

Við þá umræðu sem átti sér stað í iðnn. og við erum að vekja hér í sölum Alþingis, hv. þingmenn, kviknar líka sú spurning hvort við nálgumst umræðuna frá röngum sjónarhóli. Við erum að velta fyrir okkur hvort gera eigi nágrannasveitarfélögum sem einnig eru smá kleift að fá hlutdeild í miklum tekjum annarra lítilla sveitarfélaga þar sem stórfyrirtæki reka starfsemi sína. Eigum við e.t.v. að nálgast umræðuna hinum megin frá og spyrja hvort löggjafinn verði að horfast í augu við að fráleitt sé að vera með svo smá sveitarfélög yfirleitt.

Við höfum hvatt til sameiningar og falið sveitarfélögunum verkefni sem eru allt of stór og þung fyrir smá sveitarfélög. Við höfum hvatt til þess að þar sem þau sameinast ekki þar fari sveitarfélög saman í verkefni, þau reki saman félagsmálanefnd, reki saman skólanefnd og reki skólana saman. Það gera þessir fjórir hreppar sunnan Skarðsheiðar.

Við stöndum frammi fyrir því, þó sú spurning sé óþægileg, hvort það sé e.t.v. skylda löggjafans að lögfesta lágmarksstærð sveitarfélaga. Þá stæðum við ekki frammi fyrir því að finna leiðir til að mjatla hluta af tekjum úr einu sveitarfélagi yfir til annars. Þá stæðum við ekki frammi fyrir því að meta hvort skoða eigi hvar menn búa og hvar þeir vinna. Við vitum að það mat er óframkvæmanlegt hér á höfuðborgarsvæðinu. Fremur ættum við að skoða hversu stór sveitarfélög þurfa að vera til að bera þjónustustigið sem við ætlumst til að hver einasti íbúi í þessu landi búi við svo hann njóti þeirra tekna sem renna til sveitarfélagsins. Þessu vil ég varpa inn í umræðuna, herra forseti.