Skipulag ferðamála

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 14:23:48 (5863)

2000-04-04 14:23:48# 125. lþ. 89.7 fundur 366. mál: #A skipulag ferðamála# (menntun leiðsögumanna) frv. 20/2000, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[14:23]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég hef ekki komið að þessu máli í nefndarvinnunni vegna þess að ég á ekki sæti í þeirri nefnd sem var með það til umfjöllunar. En mig langar vegna þeirrar umfjöllunar um skipulag ferðamála og um leiðsögumannanámið að leggja áherslu á að það má ekki slaka á neinn hátt á kröfunum um menntun og þekkingu.

Nú er það þannig víða erlendis þar sem menn öðlast réttindi til leiðsögumennsku að þeir þurfa að ganga í gegnum harðan skóla og ströng próf og hafa ekki réttindi til þess að leiðsegja nema vera með slík próf að baki. Ég tel það vera mjög mikilvægt að við höldum því að þarna sé vel að verki staðið og menn séu með fróða leiðsögumenn sem hafa mikla og yfirgripsmikla þekkingu. Við gætum t.d. tekið okkur aðrar þjóðir til fyrirmyndar sem eru með leiðsögumannapróf sem skilyrði fyrir því að menn fái að leiðsegja ferðamönnum. Ekki má slaka á kröfunum.

Það er annað sem ég hefði talið að við þyrftum einnig að gera og það er að setja skilyrði fyrir því að í hverri rútu á Íslandi í leiðsögn sé innlendur fararstjóri eða leiðsögumaður sem beri ábyrgð á ferðinni. Þannig hefur þetta víða verið gert. Ég hef starfað við leiðsögn hátt á annan áratug erlendis og mjög víða er manni ekki heimilt að fara um landsvæði án þess að vera með innlendan leiðsögumann með leiðsögumannapróf með sér. Og víða fær maður ekki að koma inn í sögufrægar byggingar, sem hafa langa sögu að baki, þó að maður hafi alla þekkingu á svæðinu og byggingunum, öðruvísi en að hafa með sér innlendan leiðsögumann með faglega þekkingu og próf á viðkomandi svæði eða á viðkomandi mannvirkjum.

Ég held því að við ættum að koma okkur upp slíku kerfi og t.d. að setja það sem skilyrði að vel menntaðir íslenskir leiðsögumenn séu alls staðar með, beri ábyrgð á ferðum t.d. útlendra ferðamanna um landið. Víða eru svæði sem eru mjög hættuleg yfirferðar og erlendir leiðsögumenn þekkja ekki nema að litlu leyti og þar eigum við auðvitað að gera slíkar kröfur.

En það er sem sagt ekki verið að fjalla sérstaklega um eðli námsins heldur hvar því skuli skipað. Engu að síður tel ég ástæðu til að koma aðeins inn á það í umræðunni fyrst þetta mál er hér á dagskrá, að við pössum upp á að hvergi verði slakað á kröfunum í sambandi við menntun og að við tryggjum að þeir ferðamenn sem ferðast um landið fái þá þjónustu sem þeir búast við og fái góða þjónustu þegar þeir ferðast um okkar fallega land.