Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 15:01:47 (5871)

2000-04-04 15:01:47# 125. lþ. 89.10 fundur 484. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skattleysismörk) frv. 9/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[15:01]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er jákvætt skref sem stigið er þegar skattleysismörkin eru hækkuð eins og gert er ráð fyrir í því frv. sem hér er til umræðu. Reyndar orkar tvímælis að komast þannig að orði vegna þess að í reynd eru skattleysismörkin ekki hækkuð að raungildi heldur gerir frv. ráð fyrir því að skattleysismörk fylgi lágmarks umsaminni launaþróun og þá er litið til næstu þriggja ára.

Þetta frv. er til komið í tengslum við kjarasamninga sem kenndir hafa verið við Flóabandalagið en Alþýðusamband Íslands kom einnig að viðræðum við ríkisstjórnina um þessi mál. Ástæða er til að vekja athygli á því að hér er um sameiginlegar áherslur að ræða hjá samtökum launafólks í landinu í heild sinni. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vitnaði réttilega í ítarlega skýrslu sem ASÍ og BSRB unnu á síðasta ári. Hún ber heitið Skattkerfið frá sjónarhóli launafólks. Að skýrslunni unnu lífeyris-, velferðar- og skattanefnd ASÍ og skattanefnd BSRB en skýrslan kom út í september 1999.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vitnaði ítarlega í skýrsluna og ætla ég þess vegna að láta það vera í framsögu minni við 1. umr. að undanskildum nokkrum setningum sem mig langar til að vitna í skýrsluna, með leyfi forseta. Hér segir á bls. 43:

,,Stjórnmálamenn hafa vanið sig á að kalla það ,,óbreytt ástand`` eða ,,óbreytt skattkerfi`` þegar skattleysismörk eru látin dragast aftur úr launaþróun. En afleiðingin er síður en svo óbreytt ástand. Með því að láta skattleysismörk dragast aftur úr launaþróun er meðvitað verið að auka tekjumun í þjóðfélaginu því ráðstöfunartekjur láglaunafólks aukast hlutfallslega minna en ráðstöfunartekjur hálaunafólks þrátt fyrir hlutfallslega sömu launahækkun.``

Það sem gerst hefur hér á undanförnum árum er að skattbyrðar á láglaunahópa og millitekjuhópa hafa aukist vegna þess að skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun í landinu. Hér er því verið að stíga mikilvægt skref en þó er eitt atriði sem ég vil vekja sérstaklega athygli á.

Frv. vísar til næstu ára, þ.e. til ársins 2003. Í rökstuðningi með frv., eða þannig hefur hæstv. ráðherra komist að orði, segir að hér sé farið að kjarasamningum. Frv. er væntanlega í samræmi við þær launahækkanir sem Flóabandalagið hefur samið um og það er alveg rétt. En ég vil vekja athygli á því að hér er um að ræða 10% af launamarkaðnum á Íslandi. Kjarasamningar liggja engan veginn ljósir fyrir hjá öðrum í landinu. Þess vegna er óljóst hver kjaraþróunin verður þegar á heildina er litið. Ég hefði talið eðlilegt að við skoðun í efh.- og viðskn. væri tekið til athugunar að setja ákvæði inn í frv. þess efnis að ef um hærri tölur verði að ræða í öðrum kjarasamningum komi þær ákvarðanir sem hér er verið að lögfesta til endurskoðunar. Þannig mundi það gerast í reynd að skattleysismörkin eða persónuafslátturinn fylgdu launaþróun í landinu. Það er ekki tryggt með þessu frv. Á það vil ég leggja áherslu og það er eðlilegt að við tökum þetta til athugunar þegar málið kemur til umfjöllunar í efh.- og viðskn.