Almannatryggingar

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 15:35:25 (5878)

2000-04-04 15:35:25# 125. lþ. 89.12 fundur 503. mál: #A almannatryggingar# (dvalarkostnaður foreldris) frv. 61/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[15:35]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Íslendingar búa við einhverja bestu heilbrigðisþjónustu í heiminum. Um það hef ég aldrei efast. Og það gildir jafnt um börn sem aldna á íslenskum heilbrigðisstofnunum. Við höfum hins vegar oft rætt hvernig megi bæta þá þjónustu og andæft því þegar við teljum að verið sé að skerða hana.

Ég hef engar efasemdir um að búið sé vel að íslenskum börnum sem leita lækninga á íslenskum heilbrigðisstofnunum. Ég tel hins vegar að í ýmsum tilvikum mætti gera betur.

Það sem ég vék að í mínu máli áðan var að bera saman réttindi aðstandenda veikra barna og langveikra barna við það sem gerist á Norðurlöndunum. Ég gat um það að á Íslandi byggju foreldrar við sjö daga rétt, fengju greidda sjö veikindadaga á sama tíma og í Noregi er sá dagafjöldi 780, þar af 260 á 100% launum, 520 dagar á 65% launum. Það er þetta sem ég var að bera saman og sagði að ekki væri saman að jafna réttindum aðstandenda langveikra barna hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum. Það er því miður rétt staðhæfing.

Hins vegar vil ég ítreka það að ég styð það frv. sem hér er til umræðu og tel það vera framfaraspor.