Almannatryggingar

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 15:37:32 (5879)

2000-04-04 15:37:32# 125. lþ. 89.12 fundur 503. mál: #A almannatryggingar# (dvalarkostnaður foreldris) frv. 61/2000, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[15:37]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Drífu Hjartardóttur þá vil ég taka undir það sem stóð í skýrslunni sem hún vitnaði til að þjónusta við langveik börn er mjög góð hér á landi. Það var einmitt sérstaklega sýnt fram á það á dögunum á ráðstefnu á vegum Umhyggju, á afmæli Umhyggju þar sem farið var yfir þá þjónustu sem langveikum börnum er boðið upp á á sjúkrahúsum á Íslandi og það var mjög eftirminnilegt að sjá hve vel þeim er sinnt og hvað þau fá góða þjónustu.

Aftur á móti vil ég benda á vegna þeirrar umræðu sem var hér á undan að víða er pottur brotinn engu að síður. Við erum þá ekki endilega að tala um þjónustuna heldur réttindi foreldranna og má kannski segja að það snúi að félmrn. Þessi mál vilja oft skarast þegar þau heyra undir fleiri en eitt ráðuneyti. Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á eru réttindi foreldra til fjarvista frá vinnu vegna veikinda barna mjög ólík hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum. Það er alveg sláandi hvað það er mikill mismunur. Það eru sjö dagar sem foreldrar geta verið frá vinnu vegna veikinda barna sinna hér á landi meðan þeir fá allt upp í 90% laun í 120 daga í Svíþjóð fyrir hvert barn, 780 daga fyrir hvert barn í Noregi og greidd launauppbót til annars foreldris meðan á meðferð stendur, allt að 90% launa í Danmörku og svona mætti áfram telja um Norðurlöndin. Við erum því mun aftar.

Engu að síður er það frv. sem hér er til umræðu mikil réttarbót fyrir foreldra sem eru með langveik börn á sjúkrastofnunum og fagna ég því að það skuli vera lagt fram hér í þinginu og vona ég að það verði að lögum sem fyrst.