Hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 16:12:12 (5890)

2000-04-04 16:12:12# 125. lþ. 89.13 fundur 263. mál: #A hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn# þál., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[16:12]

Ásta Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Áður hefur komið fram í svörum ráðherra að lokanir um helgar eiga ekki við um báðar deildirnar. Annaðhvort er það unglingadeildin eða barnadeildin sem er lokuð og eftir því sem ég hef skilið er það á víxl. Það er því möguleiki að koma til móts við þessar þarfir.

En ég sagði einnig að í stefnu ríkisstjórnarinnar um hvernig á að koma til móts við þjónustu við langveik börn er verið að kynna að verið sé að setja á stofn nýja deild fyrir langveika unglinga sem ég tel að komi til móts við þetta.

Ég endurtek að skammtímavistun er nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í starfsemi unglingageðdeildar og barnageðdeildar á sama hátt og það er eðlilegur þáttur í starfsemi öldrunardeilda og í ýmsum öðrum þáttum heilbrigðisþjónustunnar.