Hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 16:13:22 (5891)

2000-04-04 16:13:22# 125. lþ. 89.13 fundur 263. mál: #A hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[16:13]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil minna hv. þm. Ástu Möller á að barna- og unglingadeild, BUGL, er lokuð um helgar. Börnin eru send heim um helgar, það er staðreynd. Það er verið að vinna heilmikið í nefndum, sagði hv. þm. Auðvitað er verið að tala um hlutina. Ríkisstjórnin vill bæta ástandið.

En það eru engar hvíldarinnlagnir, það er ekki langtímameðferð og enn er ekki komin sérstök neyðarmóttaka þó áformað sé að koma henni á. Þó að það sé til skiptis opið á barnadeildinni og unglingageðdeildinni um helgar er engu að síður verið að senda börnin heim þessar sex vikur sem þau eru þarna inni því að þau fá ekki nema skammtímameðferð inni á barna- og unglingageðdeild.

Hvað tekur þá við? Þá koma börnin aftur til foreldranna, oft jafnmikið veik og áður. Það eru engin langtímaúrræði fyrir þessi börn. Í svörum frá hæstv. ráðherra, þegar ég var með fsp. fyrr í vetur, kom fram að þjónusta á barna- og unglingageðdeildinni hefði verið aukin. Það er vegna þess að börnum fjölgar og því miður þá fjölgar líka geðsjúkum börnum því það er yfirleitt ákveðið hlutfall af börnum sem eru því miður haldin geðrænum sjúkdómum.

Í áformum ríkisstjórnarinnar er talað mjög fagurlega um að það eigi að veita þessum börnum sumardvöl og þjónustu o.s.frv. Mikið vantar upp á að þessi börn hafi sambærilegan rétt og fötluð börn, það er bara staðreynd málsins. Alltaf er hægt að vera með fögur orð, en staðreyndirnar tala sínu máli. Þess vegna spyr ég hv. þm. hvort hann ætli að styðja þetta mál í heilbr.- og trn. Þetta er eitt brýnasta málið um þessar mundir því ástandið er afleitt og það hefði þingmaðurinn vitað hefði hann komið á fund foreldra þessara barna.