Hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 16:20:01 (5894)

2000-04-04 16:20:01# 125. lþ. 89.13 fundur 263. mál: #A hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn# þál., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[16:20]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég vildi koma að við þessa umræðu er að skammtímavistun er ekki geymslustaður. Hvíldarheimili á heldur ekki að vera geymslustaður. Með því að taka þetta inn á deildir þar sem fram fer virk hæfing og endurhæfing er tveimur markmiðum náð. Annars vegar fæst hvíld fyrir fjölskyldu og hins vegar hæfing og endurhæfing fyrir þessa krakka. Það skiptir verulegu máli að börnin séu undir handleiðslu fagfólks til að auka öryggi þeirra og hæfni til að takast á við lífið. Um leið gefst tækifæri til að taka fjölskylduna inn í og aðlaga betur þessum félagslegu aðstæðum og styðja frekar.

Það sem ég mundi vilja sjá í framhaldi af þessu --- ég hef talað mikið fyrir því þar sem ég hef áður starfað á öðrum vettvangi --- er að styrkja heimahjúkrun við geðsjúk börn. Þar á ég við sérhæfða heimahjúkrun sem einnig væri hægt að kalla sjúkrahússtengda heimahjúkrun við geðsjúk börn. Þar er aukið við úrræði til að styðja þá krakka sem geta verið heima. Við vitum mjög vel að þegar foreldrar hafa beintengingu inn á sjúkrastofanir eins og sjúkrahússtengd heimahjúkrun veitir verða óþolandi aðstæður þeirra þolanlegri.