Hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 16:22:13 (5895)

2000-04-04 16:22:13# 125. lþ. 89.13 fundur 263. mál: #A hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[16:22]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég er einn af þremur flutningsmönnum þessa þingmáls og vil koma að nokkrum þáttum. Hér er lagt til að það verði komið upp hvíldarheimili eða skammtímavistun fyrir geðsjúk börn og börn með alvarlegar hegðunartruflanir. Það hefur komið fram að barna- og unglingageðdeild Landspítalans er eina stofnunin á heilbrigðissviði sem sinnir þessum sjúklingum og það eru eingöngu fimm langlegupláss til framhaldsmeðferðar fyrir börn með alvarlega geðsjúkdóma á landinu öllu þar fyrir utan. Einnig hefur komið fram að nokkuð er um liðið frá því þessi þáltill. kom fram á þinginu.

Í vetur hefur sem betur fer verið unnið að undirbúningi þess að sinna betur langveikum börnum og þar með geðsjúkum börnum. En þó sú ágæta vinna sé í gangi þá er það staðreynd sem blasir sérstaklega við foreldrum þessara barna að hvíldarúrlausnir vantar. Því vil ég biðja alla þá sem vinna að málefnum langveikra barna að hafa þessa úrlausn inni í þeirri mynd.

Hvíldarheimili væri gott úrræði fyrir þessi börn sem í dag eru ekki nema 20, sem er kannski 20 börnum of mörg ef við lítum þannig á það. Því miður má gera ráð fyrir að þeim fjölgi frekar á komandi árum. Við erum hér að tala um hvíldarheimili sem tengt væri þeirri sérfræðiþjónustu sem fyrir er og þar færi fram endurhæfing samhliða. En það er líka hægt að vísa til sveitarfélaganna og vætnanlegra laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem málefnum fatlaðra verður komið fyrir. Geðsjúkir mundu þá eiga sama rétt og fatlaðir einstaklingar í þjóðfélaginu í dag.

Fatlaðir einstakingar eiga rétt á hvíldarheimili og stuðningsfjölskyldum en geðsjúkir falla þar fyrir utan. Nú á að breyta þessu þannig að rétturinn verði sá sami þegar lögin um félagslega þjónustu taka gildi. Þá verður þessi þjónusta komin yfir á sveitarfélögin og þá þarf að gera þeim kleift að sinna þessum einstaklingum eins og fötluðum. Þá erum við ekki að tala um sérhæfða stofnun eða hvíldarheimili í hverju sveitarfélagi heldur annars konar þjónustu, t.d. stuðningsfjölskyldur fyrir þessi börn eða annars konar þjónustu. Þar má nefna aukna þjónustu heilbrigðisstofnana í samvinnu við svæðisskrifstofu fatlaðra. Því miður eru ekki alls staðar sérhæfðar sjúkrastofnanir, en góðar heilsugæslustöðvar eru út um allt land. Vissulega má vera meiri samvinna á milli félagsþjónustunnar og heilsugæslunnar eins og ég hef áður nefnt. En þarna þarf samvinnu á milli. Ýmsum svona málum væri hægt að fara að vinna að þó frv. um það hafi ekki verið lögfest. Það þarf að undirbúa þennan farveg.

Það er varla hægt að lýsa því fyrir þeim sem ekki hafa kynnst því hvernig aðstæður foreldra geðsjúkra barna eru. Þó maður heyri þær lýsingar þá kemst það ekki í hálfkvisti við að kynnast því í raun. Þessir foreldrar eru því miður oft einstæðar mæður þar sem álagið er það mikið að fjölskyldur sundrast. Foreldrar ná ekki að stunda vinnu með eðlilegum hætti. Það er ekki hægt að fara frá veiku barni. Þetta skapar félagslega einangrun sem verður oft algjör. Það er ekki hægt að fá nema kannski nánustu aðstandendur til að gæta barnsins ef foreldri vill fara eitthvað frá. Álagið er því einna mest á systkinum ef til staðar eru og því miður þá verður það oft til þess að þau bera þess ekki bætur.

Rétt er að hafa í huga að fordómar eru til staðar gagnvart geðsjúkdómum. Menn fyllast í minnsta lagi forvitni þegar fólk, ég tala nú ekki um börn, með einkennilega hegðun er á almannafæri. Það er erfitt fyrir þau og aðstandendur þeirra að bregða sér af bæ og vera úti meðal almennings ef hegðun barnsins vekur mikla athygli. Það ýtir líka undir það að erfitt er að koma sér út á meðal manna og hafa barnið með sér.

Ef réttur geðsjúkra barna verður sá sami og langveikra barna og þjónustan fer yfir til félagsþjónustu sveitarfélaganna þá er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir afleiðingum þess. Þó hugmyndafræðin sé til staðar, aðferðirnar til að leysa verkefnið þá er, eins og fram kom í máli hv. þm. Ástu Möller ef ég skildi hana rétt, ekki þar með sagt að hægt sé að fá það starfsfólk sem þarf að vera til staðar. Þannig þarf líka að huga að því að þessum börnum er ekki komið fyrir bara í pössun, ekki komið fyrir á hvíldarheimili nema þar sé fólk með ákveðna þekkingu og reynslu til þess að sinna þörfum geðsjúkra barna.

Það er mjög mikilvægt að koma hvíldarþjónustunni heim í læknishéruðin, að það verði ekki eingöngu ein stofnun hér á höfuðborgarsvæðinu. Þó við séum að tala um að koma upp skammtímavistun, hjúkrunarheimili eða hvíldarheimili eins og hér er gert ráð fyrir, sem einnig sinnti endurhæfingu þá er mjög mikilvægt að koma hvíldarþjónustunni heim í læknishéruðin þannig að ekki þurfi að senda börnin langar leiðir.