Smásala á tóbaki

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 17:41:50 (5911)

2000-04-04 17:41:50# 125. lþ. 89.16 fundur 368. mál: #A smásala á tóbaki# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[17:41]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Eins og aðrir hv. þm. lýsi ég stuðningi við þessa þáltill. um að smásala á tóbaki verði háð leyfisveitingu. Ég tel mjög mikilvægt að lögum sé framfylgt. Það er betra að hafa færri lög og mjög mikilvægt að þeim sé framfylgt vegna þess að ef lögum er ekki framfylgt grefur það undan virðingu almennings fyrir lögum.

Lögum um sölu tóbaks er ekki framfylgt. Það hafa kannanir sýnt og tilraunir sem menn hafa gert sýna að enginn vandi er fyrir unglinga undir 18 ára aldri að kaupa tóbak. Þess vegna tel ég brýnt að fara þá leið sem hér er lögð til, þ.e. að sala á tóbaki verði háð leyfisveitingu. Sú leyfisveiting má gjarnan vera mjög einföld í sniðum og hún má vera ódýr en þannig að menn missi hana ef þeir brjóta lögin ítrekað en fái áminningu áður.

Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að rannsóknir hafa sýnt að þeim sem byrja ungir að reykja er sérstaklega hætt við að verða fíkninni að bráð. Það er því mikilvægt að lögum um að börn undir 18 ára aldri megi ekki kaupa tóbak sé framfylgt.

Herra forseti. Í þessu sambandi vil ég gjarnan geta þess að sömu aðferð mætti nota með áfengi, þ.e. að smásala á áfengi væri háð leyfisveitingu og sömu aðferð verði beitt við að veita leyfi til að selja áfengi. Sumir hv. þm. telja að það gæti verið skynsamlegt að áfengi yrði ekki selt lengur í þeim musterum sem selt er í dag, þar sem áfengið er sveipað heilagleika og gert mjög spennandi, heldur yrði það selt eins og hver önnur vara í verslunum. En þá yrði að sjálfsögðu að hafa einhverja slíka leyfisveitingu til þeirra sem selja áfengi þannig að þar séu lög heldur ekki brotin. En ég vil minna á, herra forseti, að á kvöldin um helgar í Reykjavík sjást útúrdrukknir unglingar langt undir þeim aldri að hafa mátt kaupa það áfengi sem þeir hafa innbyrt. Lögum er ekki framfylgt um áfengisneyslu unglinga. Þeir drekka sem sagt bæði landa og fá keypt fyrir sig og komast í áfengi einhvern veginn. Þá er betra að hafa lögin ögn mildari og refsa þeim sem mundu selja þeim áfengi.

Ég legg því til að það yrði jafnframt skoðað að áfengissala yrði gerð almenn í verslunum og áfengissalan yrði háð leyfisveitingum eins og smásala á tóbaki.