Viðbrögð við vandamálum sem tengjast spilafíkn

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 13:53:27 (5918)

2000-04-05 13:53:27# 125. lþ. 91.1 fundur 445. mál: #A viðbrögð við vandamálum sem tengjast spilafíkn# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[13:53]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svarið þó ég sé mjög óánægður með þetta svar því ég fæ ekki betur skilið en ekkert eigi að gera.

Okkur er bent á að þessar þjóðþrifastofnanir séu að afla fjár til uppbyggingarstarfs. Hins vegar er þetta uppbyggingarstarf þannig vaxið að það brýtur niður meira en það byggir upp. Staðreyndin er sú að spilafíkn er alvarlegur sjúkdómur og hann er skilgreindur sem slíkur og honum fylgja aðrir alvarlegir sjúkdómar, svo sem áfengissýki, ýmiss konar geðræn vandamál, fælni, þunglyndi og kvíði og hinir sjúku eiga oft við alvarleg félagsleg vandamál að stríða. Sjúkdómurinn leysir upp fjölskyldur, ræðst að atvinnuöryggi og tækifærum hinna veiku og eyðileggur framtíð barna þeirra.

Fyrir nokkru efndi Rauði kross Íslands, SÁÁ og Slysavarnafélagið Landsbjörg til fundar á Grand Hótel í Reykjavík. Það var boðið sérfræðingi erlendis frá, frá Las Vegas í Bandaríkjunum. Tilefni fundarins og markmið var að reyna að sannfæra fundargesti og í kjölfar íslenska þjóð um að spilavíti væru af hinu besta og ættu heima í þjóðfélagi okkar.

Síðan fáum við svar frá hæstv. dómsmrh. um hvaða úrræði á að bjóða upp á. Bæklingur var gefinn út af einhverjum samtakanna. Þetta minnir mig á það að menn ráðist að veikburða manni, brjóti undan honum fæturna og bjóði honum síðan hækjur til að styðjast við. Þetta eru engin svör, hæstv. dómsmrh., og þau frv. sem við höfum talað fyrir hafa verið flutt á mörgum þingum. Alltaf hafa þau verið svæfð. En ég vil lýsa því yfir að það verður ekki endalaust. Við munum ekki gefast upp fyrr en við fáum einhverja niðurstöðu í þessi mál og önnur svör koma frá hæstv. dómsmrh.