Viðbrögð við vandamálum sem tengjast spilafíkn

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 13:55:57 (5919)

2000-04-05 13:55:57# 125. lþ. 91.1 fundur 445. mál: #A viðbrögð við vandamálum sem tengjast spilafíkn# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[13:55]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég verð að fá að minna hv. þm. og fyrirspyrjanda á það að spilafíkn er ekki ný af nálinni. Hún hefur fylgt manninum lengi og það er ekki bara spurning um eitthvert form á happdrættum eða fjölda söfnunarkassa sem við erum að tala um. Ég get hins vegar alveg tekið undir með honum að það er sjálfsagt og er rétt og skylt að fylgjast með þróun í þessum málum.

Eins og ég sagði áðan eru ýmis úrræði til staðar í þjóðfélaginu í dag, sem betur fer, til að ráða bót við spilafíkn. Ég kannast ekki við, og ég legg á það ríka áherslu, að fram hafi komið athugasemdir við þau meðferðarúrræði sem eru í gangi í dag en stjórnvöld eru vissulega á varðbergi gagnvart þessu máli og fylgjast með hvernig því vindur fram.

Úrræðin sem eru til staðar í dag virðast hins vegar hafa fengið góðan hljómgrunn og unnt hefur verið að anna þeim málum sem upp hafa komið. Eins og fyrr sagði nýtur SÁÁ styrktar ríkisins á fjárlögum og frá happdrættisfyrirtækjum til verulegs hluta starfsemi sinnar.