Heimsóknir útlendinga

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 14:16:32 (5929)

2000-04-05 14:16:32# 125. lþ. 91.2 fundur 508. mál: #A heimsóknir útlendinga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[14:16]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég verð í tilefni af þessari umræðu að spyrja: Á hvaða leið eru hv. þingmenn? Hafa þeir ekkert kynnt sér hvaða lög og reglur gilda um málefni útlendinga, bæði hér á landi og í nágrannaríkjum og almennt annars staðar í löndum sem við höfum náin samskipti við? Það gengur nú meira að segja svo langt í Danmörku, þar sem við erum að tala um heimsóknir ættmenna, að ef einhver vafi leikur á um skyldleika er hægt að fara fram á DNA-rannsókn til að sýna fram á skyldleikatengsl. Ég held að hv. þm. ættu að kynna sér hvað er að gerast í okkar heimi hér.

En ég vil nota tækifærið, virðulegi forseti, og svara seinni spurningu hv. fyrirspyrjanda þar sem spurt var hvort ráðherra hygðist afnema skilyrði sem eru fyrir heimsóknum útlendinga utan EES-svæðisins. Svar mitt við þessari spurningu er að til þess hef ég enga heimild. Orðalag 10. gr. laganna um eftirlit með útlendingum er tvímælalaust (ÁRJ: Það er hægt að breyta reglunum.) en það hefst á orðunum ,,að meina beri`` o.s.frv. Það er hægt að breyta viðmiðunarreglum um framfærslu eins og nýlega settar vinnureglur gera en meginatriðinu um að framfærsla sé tryggð get ég ekki breytt.

Ég mun hins vegar leggja fyrir næsta þing frv. til nýrra útlendingalaga og þá verður hægt að taka fyrir umræðuna um hvort slaka skuli á skilyrðunum fyrir dvalarleyfi útlendinga hér á landi. Það er ljóst að núgildandi reglur eru ekki strangari en svo að nýjum borgurum af erlendum uppruna, nýbúum, hefur fjölgað verulega á síðustu árum. Þannig voru á árinu 1993 veitt 417 ný dvalarleyfi og 1.264 dvalarleyfi útlendinga voru þá framlengd. Samtals er hér um að ræða 1.681 dvalarleyfi.

Á síðasta ári, þ.e. árið 1999, voru hins vegar 2.333 ný dvarleyfi veitt til útlendinga og 2.243 dvalarleyfi voru framlengd, eða alls 4.576. Aukningin á þessum sex árum er því 172%.