Móttaka flóttamanna

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 14:35:53 (5938)

2000-04-05 14:35:53# 125. lþ. 91.4 fundur 497. mál: #A móttaka flóttamanna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[14:35]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hef ég ákveðið að ganga til samninga við bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar um móttöku 20--25 flóttamanna frá Krajina-héraði í fyrrum Júgóslavíu. Þetta geri ég að tillögu flóttamannaráðs. Auglýst var eftir áhugasömum sveitarfélögum í janúar sl. Einungis eitt sveitarfélag óskaði eftir að taka á móti flóttamönnum og það var Siglufjörður. Flóttamannaráð mælti með því að gengið yrði til samninga við Siglufjörð. Meðal þeirra atriða sem voru höfð til hliðsjónar við val á sveitarfélagi --- þetta val er vandað og reynt er að fara mjög nákvæmlega yfir aðstæður í sveitarfélaginu áður en ákvörðun er tekin --- var í fyrsta lagi staða félagsþjónustu sem er sérlega góð á Siglufirði. Tillit er tekið til skólamála og húsnæðismála. Hvort tveggja er í góðu lagi á Siglufirði. Tekið er tillit til vinnumarkaðar. Að flestu leyti er vinnumarkaður á Siglufirði góður. Það vantar fólk í mörg störf. Síðan er líka tekið tillit til virkni Rauða kross deildar á staðnum því að Rauði krossinn kemur mjög að verkinu og Rauða kross deildin á Siglufirði er alveg sérstaklega öflug. Þar er unnið mikið og fórnfúst starf. Síðan er líka litið á íbúafjölda svæðisins.

Undirbúningurinn er hafinn og allir aðilar sem að verkinu hafa komið hafa sýnt mikinn metnað í að leysa það vel af hendi. Áætlað er að sendinefnd fari út á næstu vikum til að hitta þær fjölskyldur sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur mælt með að komi hingað til lands og það er ráðgert að flóttafólkið komi í júní næstkomandi.

Síðan ég kom í félmrn. hafa komið í kringum 150 flóttamenn á vegum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hingað til lands til búsetu. Þessir hópar hafa farið til Ísafjarðar, Hornafjarðar, Blönduóss, Reyðarfjarðar, Dalvíkur og Hafnarfjarðar og nú fer hópur til Siglufjarðar. Allt hefur þetta gengið alveg framúrskarandi vel og verið einstaklega ánægjulegt að koma að þessu verkefni og vinna að því með heimamönnum. Ég veit að svo verður einnig á Siglufirði. Ég þekki þar vel til og veit að þar er samfélag sem kemur til með að taka mjög vel á móti gestum. Þetta fólk hefur yfirleitt reynst góðir borgarar og undantekningarlítið reynst góðir borgarar í sínum sveitarfélögum eða í þjóðfélaginu. Margir hafa flutt sig eitthvað til innan lands og sem betur fer fór hópurinn sem kom til Reyðarfjarðar í sumar allur til baka til Kosovo eftir að friður komst þar á, þar sem hann taldi sig hafa þar að góðum kostum eða fullnægjandi kostum að hverfa og stjórnvöld í Kosovo lögðu mikla áherslu að fá þetta góða fólk til baka. Og það var út af fyrir sig mjög ánægjulegt að það skyldi geta horfið heim til sín aftur.