Móttaka flóttamanna

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 14:39:48 (5939)

2000-04-05 14:39:48# 125. lþ. 91.4 fundur 497. mál: #A móttaka flóttamanna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[14:39]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda, Þórunni Sveinbjarnardóttur frá Samfylkingunni, varðandi þessi brýnu mál. Það er mjög mikilvægt að Ísland skipi sér í sveit vestrænna ríkja sem vilja leggja sitt af mörkum varðandi flóttafólk og gefa því tækifæri til nýs lífs.

Eins og hér hefur komið fram eru samningar gerðir við sveitarfélög og fólki er boðið á einn stað og vissulega hefur verið vel að þessu fólki hlúð við komuna. En því miður hefur þetta ekki bara gengið vel og þar er ég ósammála hæstv. félmrh. Það eru ekki alls staðar störf við hæfi og því miður hefur þróunin orðið sú að jafnvel allt að helmingur þessa fólks hefur flutt af svæðinu sem því var boðið á í upphafi. Þess vegna spyr ég ráðherrann hvort það sé ekki áhyggjuefni að lagt er mikið í undirbúning og fé veitt til þess að koma fólkinu vel fyrir, en síðan unir það sér ekki á stöðunum og fyrir marga eru þeir staðir úti á landi sem boðið er upp á framandi og þetta er ekki val fólksins sjálfs.