Meðferð á psoriasis

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 15:00:12 (5948)

2000-04-05 15:00:12# 125. lþ. 91.5 fundur 476. mál: #A meðferð á psoriasis# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[15:00]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að fáist ekki lækning hér heima geta þessir sjúklingar leitað til siglinganefndar og farið til Kanaríeyja í þessa meðferð eins og þeir hafa hingað til getað. Ég minni líka á að meðhöndlunin í Bláa lóninu hefur stórbatnað með hótelinu sem þar var reist og þar fá 222 sjúklingar meðhöndlun árlega. Það eru ekki bara Íslendingar sem þangað koma heldur útlendingar líka og telja jafnvel margir að þeir fái meiri bata í Bláa lóninu en við höfum hingað til horft til. Ég minni því sérstaklega á að við höfum verið að bæta aðstöðuna. Við höfum bætt aðstöðuna við heilsugæslustöðvarnar fyrir þessa sjúklinga og þannig er mjög margt gert. Mér finnst eðlilegt að þessir sjúklingar, eins og allir aðrir sjúklingar sem þurfa meðferð erlendis, fari í gegnum siglinganefnd.

Mér finnst óeðlilegt að setja kvóta eins og boðaður var hér áðan, að það eigi bara einhver viss fjöldi að fara í slíka meðferð erlendis. Auðvitað þurfum við að fara eftir vísindalegum forsendum þegar það er ákveðið.