Greiðsla þungaskatts erlendra ökutækja

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 15:03:39 (5950)

2000-04-05 15:03:39# 125. lþ. 91.6 fundur 446. mál: #A greiðsla þungaskatts erlendra ökutækja# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[15:03]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Spurt er hvaða reglur gildi um notkun kreditkorta við greiðslu þungaskatts erlendra ökutækja sem koma tímabundið til landsins.

Samkvæmt lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, ber að greiða af erlendum ökutækjum, annars vegar fast gjald þungaskatts og hins vegar kílómetragjald. Ef um er að ræða ökutæki sem nýtt eru til atvinnurekstrar fer um greiðsluskyldu með sama hætti og skráð innlend ökutæki, þ.e. í þeim ber að hafa ökumæli ef þau eru 4 tonn eða þyngri og af þeim er 25% hærra fast gjald o.s.frv.

Reglum um álagningu þungaskatts af erlendum skráðum ökutækjum var breytt á síðasta ári til samræmis við reglur sem gilda um sambærileg innlend ökutæki. Fyrir þann tíma var greiddur mun hærri þungaskattur af erlendum skráðum ökutækjum. Meginforsenda breytingarinnar var að jafna stöðu ökutækjanna hvort sem þau eru skráð hérlendis eða erlendis.

Almennt tíðkast ekki að greiða opinber gjöld með kreditkortum. Gjaldanda ber að standa skil á greiðslum á fyrir fram ákveðnum gjalddögum eða eindögum og þá með staðgreiðslu. Að taka upp mismunandi greiðsluform gengur gegn þeim meginreglum sem gilda um álagningu og innheimtu skatta og jafnræði gjaldenda. Með þeirri tilhögun fengju sumir gjaldendur lengri greiðslufrest en aðrir. Það gengi gegn ákvæðum laga um gjalddaga og eindaga þar sem greiðsluskylda þeirra yrði þá ekki til fyrr en á gjalddaga greiðslukortareiknings í stað gjalddaga eða eindaga laga um viðkomandi skatt. Upphafstími vanefnda gæti þannig einnig orðið mismunandi eftir greiðslufyrirkomulagi gjaldandans.

Jafnframt er kveðið á um það í 8. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, að innheimtumenn ríkissjóðs annist innheimtu þungaskatts. Ef heimila ætti greiðslukortafyrirtækjum innheimtu þungaskatts gengi það gegn þessu ákvæði. Í þessu sambandi má þó geta þess að gjaldandi getur greitt gjöld sín og skatta hjá innheimtumanni með debetkorti þar sem tæknilegur aðbúnaður viðkomandi innheimtumanns býður upp á slíkt. Ef um er að ræða erlent debetkort frá fyrirtæki sem íslenskt kortatæki hefur gert samstarfssamning við getur gjaldandinn að því er best er vitað notað slíkt kort til greiðslu hjá innheimtumanni.

Þannig eru þessar reglur, hv. fyrirspyrjandi, og vandséð að þeim verði auðvelt að breyta án þess að til komi ný vandamál sem birtust í formi mismununar milli gjaldenda eða frávikum frá þeirri reglu að innheimtumenn ríkissjóðs annist innheimtu þungaskatts en ekki greiðslukortafyrirtæki. Þannig eru ekki neinar sérstakar hugmyndir um breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Ekki stendur til að heimild verði gefin til greiðslu skatta með kreditkorti og það svarar síðari spurningu hv. þm. Hins vegar er að sjálfsögðu eðlilegt að fylgjast með öllum tækninýjungum, framförum og framþróun á þessu sviði þannig að unnt sé að veita sem besta þjónustu bæði innlendum sem erlendum gjaldendum.