Lækkun lyfjaútgjalda Tryggingastofnunar ríkisins

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 15:11:01 (5953)

2000-04-05 15:11:01# 125. lþ. 91.7 fundur 516. mál: #A lækkun lyfjaútgjalda Tryggingastofnunar ríkisins# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[15:11]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er heldur óvenjulegt að beina þeirri spurningu til fjmrh. hvort hann ætlist til að staðið verði við markmið fjárlaga. Að sjálfsögðu gerir fjmrh. á hverjum tíma þær kröfur til allra samráðherra sinna og fagráðherra að þeir standi við þau markmið sem samstaða hefur náðst um í fjárlagafrv. Það á við um þetta ákvæði eða þá fyrirætlan sem hér er til umræðu eins og aðrar. Það er að sjálfsögðu fagráðuneytisins að útfæra hvernig unnið er að þeim sparnaði sem um er að ræða.

Hér er talað um 1.000 millj. kr. sparnað í lyfjainnkaupum. Það liggja fyrir breytingar sem gerðar voru í þessu efni um síðustu áramót sem fagráðuneytið telur að muni skila milli 300 og 400 milljónum. Það er auðvitað verkefni þess ráðuneytis að finna leiðir til þess að skila afgangnum. Að sjálfsögðu er ekki deilt um að ætlast er til að heilbrrn. finni aðrar leiðir ef þær sem áður voru ráðgerðar ganga ekki upp.

Í þessu sambandi hefur verið talað um að gjörbreyta greiðslufyrirkomulagi í sambandi við lyf, innleiða hér nýtt kerfi eins og gert hefur verið í Svíþjóð og Danmörku. Það verða einhverjar tafir á því að það kerfi sjái dagsins ljós hér á Íslandi. En á meðan verður ráðuneytið að grípa til annarra ráða til að standa við sinn hluta af fjárlögunum að þessu leyti.

Þetta held ég að sé augljóst mál og eiginlega er alveg furðulegt að þingmaður sem hefur bæði verið fjmrh., heilbrrh. og formaður fjárln. Alþingis skuli bera fram fyrirspurn af þessu tagi.