Lækkun lyfjaútgjalda Tryggingastofnunar ríkisins

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 15:16:57 (5957)

2000-04-05 15:16:57# 125. lþ. 91.7 fundur 516. mál: #A lækkun lyfjaútgjalda Tryggingastofnunar ríkisins# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SighB
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[15:16]

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Það er mjög eðlilegt að menn spyrji hann um þetta mál vegna þess að það fékkst ekkert svar frá hæstv. heilbrrh. Það er ekki rétt hjá hv. formanni fjárln. að það hafi náðst 300--400 millj. kr. lækkun útgjalda vegna lyfjakostnaðar af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til. Vonast var til að það gæti e.t.v. náðst á heilu ári. En heilbr.- og trmrn. tilkynnti fjárln. í desembermánuði sl. að þeir ætluðu að ná í 600 millj. kr. lækkun til viðbótar og hvorugt hefur staðist. Þær aðgerðir sem áttu að sjá dagsins ljós til að ná þessum 600 millj. til viðbótar hafa ekki komið fram enn þá, og komið að þinglokum.

Hinar aðgerðirnar sem hv. formaður fjárln. talaði um hafa heldur ekki skilað þeim árangri sem til var ætlast, hvað þá heldur nú þegar þeim árangri sem til var ætlast á heilu ári.

Kjarni málsins er sá sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. Hann ætlast til þess að við þessa lækkun lyfjaútgjalda verði staðið og sagðist krefjast þess að fagráðherra viðkomandi máls, heilbrrh., næði þeim með einhverjum hætti. Þá er enginn önnur leið til innan ramma gildandi laga nema að hækka hlut sjúklinga. Ef á að breyta því þá þarf að breyta lögum og ekkert frv. hefur séð dagsins ljós um það fyrir Alþingi enn.

Ég þekki ósköp vel samskipti fjmrn. og heilbrrn. frá minni ráðherratíð. Þá var það samráð þessara tveggja ráðuneyta hvernig ætti að bregðast við ef ekki næðust þau markmið sem menn ætluðu sér að ná og menn leituðu lausna sameiginlega. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Er það ekki gert núna líka? Leggur hann ekki sitt lóð á vogarskálina um það hvernig heilbrrn. skuli ná þessum árangri eða krefst hann þess að heilbrrh. nái því án þeirrar aðstoðar sem fjmrh. getur og þarf að veita ráðherranum í þeim efnum? Ekki veitir af aðstoð þar.