Fullorðinsfræðsla fatlaðra

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 15:20:55 (5959)

2000-04-05 15:20:55# 125. lþ. 91.8 fundur 492. mál: #A fullorðinsfræðsla fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Málefni fatlaðra hafa hvað eftir annað komið til umræðu á þessu þingi og er greinilegt að hér er um að ræða málaflokk sem hvílir þungt á mönnum. Skorað hefur verið á stjórnvöld að bæta úr á ýmsum sviðum og tryggja fötluðum sama rétt og sömu tækifæri til innihaldsríks lífs og aðrir þegnar samfélagsins hafa. Hér áðan var fjallað um sumardvöl fatlaðra barna í Reykjadal í Mosfellssveit og þar má segja að málum hafi verið reddað í horn af hæstv. félmrh. en þó einungis til eins árs.

Það er nokkuð einkennandi fyrir þennan málaflokk, herra forseti, hversu oft ráðherrar lenda í að redda hlutum fyrir horn. Ég leyfi mér að halda því fram að málefni fatlaðra eigi skilið ábyrgari meðferð í stjórnkerfinu og hjá framkvæmdarvaldinu en reddingar fyrir horn.

Veigamikill þáttur í málefnum fatlaðra eru menntamálin en þar hafa líka tíðkast reddingar frá ári til árs þó hæstv. ríkisstjórn hafi nú gefið til kynna að nú hilli undir úrbætur er lúti að lengingu framhaldsnáms fyrir fatlaða nemendur þó sannarlega mættu sjást gleggri merki um að stjórnvöld ætli í þeim efnum að standa við orð sín.

Sá þáttur menntamálanna sem ég nú vek máls á er fullorðinsfræðsla fatlaðra. Fullorðinsfræðsla fatlaðra skipuleggur námskeið fyrir fullorðið fólk sem á þess ekki kost að sækja fullorðinsfræðslu við sitt hæfi hjá öðrum aðilum. Kennslan fer fram í námskeiðsformi og stunda nú um 300 manns nám hjá fullorðinsfræðslunni í Reykjavík og nágrenni og um 150 manns utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta er fólk frá 17 ára aldri til 67 ára aldurs.

Fullorðinsfræðslan hefur átt í vaxandi erfiðleikum vegna fjárskorts síðustu missiri og hefur þurft að draga nokkuð úr starfseminni á höfuðborgarsvæðinu, t.d. hefur nemendatímum fækkað talsvert milli ára og kemur það eðlilega afskaplega illa niður á mörgu. Fjárskorturinn er einn liður í fyrirspurn minni til hæstv. menntmrh. en annar liður varðar húsnæðismál fullorðinsfræðslunnar.

Um þessar mundir fer kennsla fram á tíu stöðum á höfuðborgarsvæðinu: Í Blesugróf, á Kópavogshæli, í Bústöðum, í Safamýrarskóla, á vinnustofunni Ási, í sundlaug endurhæfingardeildar Landspítalans svo að einhverjir staðir séu nefndir, ef sundlaugin stendur þá enn fullorðinsfræðslunni til boða. Mér er ekki fullkunnugt um það. En stærsti hluti bóklegu kennslunnar fer fram í Borgarholtsskóla. Þar hefur fullorðinsfræðslan þó ekki fengið fastan samastað og vita forráðamenn hennar og þiggjendur þjónustunnar ekki annað en samningar við Borgarholtsskóla renni út nú í vor. Þá lítur út fyrir að sá þáttur kennslunnar verði húsnæðislaus á hausti komanda. Nú spyr ég hæstv. menntmrh.:

1. Hvaða áform eru uppi um fullorðinsfræðslu fatlaðra á næstunni:

a. með tilliti til húsnæðisvanda starfseminnar,

b. í ljósi samdráttar á yfirstandandi námsári?

2. Er gert ráð fyrir að breyta rekstrarformi fullorðinsfræðslunnar í nánustu framtíð?