Fullorðinsfræðsla fatlaðra

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 15:28:23 (5961)

2000-04-05 15:28:23# 125. lþ. 91.8 fundur 492. mál: #A fullorðinsfræðsla fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[15:28]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin og lýsi því yfir að mér þykir ákaflega vænt um að heyra falleg orð hæstv. ráðherra í garð fullorðinsfræðslunnar. Ég finn að hann metur mikils það starf sem þar er innt af hendi og þar deilum við svo sannarlega sömu skoðun.

Mig langar til að lýsa yfir ánægju minni með að heyra að vilji ráðuneytisins sé að leysa húsnæðisvanda stofnunarinnar sem er talsverður. Ég hef sjálf komið í hús fullorðinsfræðslunnar í Blesugróf. Það er afskaplega erfitt fyrir fatlað fólk. Það er einbýlishús með stórum stiga upp í gegnum mitt húsið og af sjálfu leiðir að hann nýtist ekki fyrir þá sem þarna þurfa að fara um sali eða húsakynni.

Varðandi orð hæstv. ráðherra um fjármálin, fjárveitingarnar og þær hafi ekki minnkað eða verið dregnar saman vil ég einungis segja að það sem ég hef fyrir mér og er grunnurinn að spurningu minni, herra forseti, er sótt í fréttabréf fullorðinsfræðslu fatlaðra sem gefið var út sl. haust. Þar segir að vegna rekstrarfjárskorts hafi orðið að draga nokkuð saman starfsemina á höfuðborgarsvæðinu nú í haust og fækka nemendatímum í námskeiðum. ,,Þetta hefur auðvitað komið illa við marga og ber að harma.``, segir í þessu fréttabréfi, með leyfi forseta. Þetta hafði ég fyrir mér í því.

Eins má geta þess hér að hollvinasamtök fullorðinsfræðslunnar hafa verið stofnuð. Þau voru stofnuð 29. mars sl. Það má ætla af orðum hæstv. ráðherra og af þeim áhuga sem það fólk sem stendur að hollvinasamtökunum hefur sýnt á þessu málefni, að fáni fullorðinsfræðslunnar verði borinn hátt á næstu missirum. Ég treysti því, herra forseti, að hún fái að blómstra undir handleiðslu hæstv. ráðherra.