Vörugjald af ökutækjum

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 15:53:37 (5965)

2000-04-05 15:53:37# 125. lþ. 92.1 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (lækkun gjalda) frv. 8/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar síðasta atriðið, sérútbúna hjólastólabíla fyrir fatlaða, þá held ég að samkomulag sé um það milli manna að fella alveg niður vörugjaldið af þeim, þ.e. fara úr 30% ofan í 0% í stað þess að fara úr 30% ofan í 10%. Ég þakka þingmanninum fyrir ágætt samstarf um það mál.

Varðandi umsagnir þær sem borist hafa þá kemur auðvitað ekki á óvart að bæði Seðlabanki og Þjóðhagsstofnun skuli fara með nokkur viðvörunarorð í sambandi við mál sem lýst er yfir í grg. að muni valda tekjutapi hjá ríkissjóði. Ég tel að það sé skylda þessara stofnana að hafa uppi slík viðvörunarorð. Áður en þetta frv. var flutt veltu menn þessum þáttum að sjálfsögðu vel og vandlega fyrir sér.

Ég tel hins vegar að hér sé um að ræða svo lágar upphæðir sé litið til hagkerfis okkar í heild, eins og ég sagði við 1. umr., að þær velti einar og sér ekki þungu hlassi. Það hefur verið mikil mettun á markaði fyrir bíla að undanförnu og þess er ekki að vænta að stökkbreytingar verði í kjölfarið á þessum lagabreytingum hér, alls ekki. Þess vegna taldi ég núna meira um vert að ná þeim markmiðum sem ætlunin er að ná með þessu frv. þó að búast hefði mátt við viðvörunarorðum hjá Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka. Einhvern tíma verða menn að taka af skarið í svona málum ef menn hafa á annað borð þá sannfæringu að neyslustýringin eigi að vera minni en hún hefur verið.

Þess vegna er þetta gert núna. Meginmálið er að gefa fleirum kost á að eignast betri bíla, öruggari, umhverfisvænni og draga úr tollsvikum í sambandi við innflutning á notuðum bílum.