Vörugjald af ökutækjum

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 15:57:48 (5966)

2000-04-05 15:57:48# 125. lþ. 92.1 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (lækkun gjalda) frv. 8/2000, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 125. lþ.

[15:57]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir afstöðu hans til vörugjalds á sérbúnum bifreiðum fyrir fatlaða. Ég vænti þess að á því verði tekið áður en þetta mál verður samþykkt frá Alþingi.

Ég verð að segja að afstaða hæstv. fjmrh. til þjóðhagslegra áhrifa af þessum breytingum vekja hjá mér furðu miðað við þann gífurlega innflutning sem hefur verið á bílum, miðað við gífurlegan viðskiptahalla og almenna þenslu í þjóðfélaginu, ekki síst í útlánum hjá bankastofnunum. Við erum að mínu viti að tala um töluverðar fjárhæðir, um 400 millj. kr., og hér liggja fyrir mjög sterkar aðvaranir frá Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun. Mér finnst það skylda stjórnvalda og ekki síst fjmrh. að hlusta á þær aðvaranir en þær hafa verið settar fram af minni hlutanum einnig sem tekur undir skoðanir Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka í þessu máli. Meira er sennilega ekki hægt að gera.

Hæstv. ráðherra sagði að ekki væri um annað að ræða en að stökkva í þessu máli, að alltaf væri spurning hvenær tímabært væri að gera slíkar breytingar. Hæstv. ráðherra hefur verið varaður við að gera þær núna miðað við ríkjandi efnahagsskilyrði. Nú er allt önnur staða uppi en var árin 1993, 1995 og 1996 þegar sambærilegar breytingar áttu sér stað. Við slík skilyrði er hægt að koma fram með slíkar breytingar. Það á ekki að koma með slíkan eldsmat inn í verðbólguna eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.