Vörugjald af ökutækjum

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 18:00:59 (5968)

2000-04-05 18:00:59# 125. lþ. 92.1 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (lækkun gjalda) frv. 8/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 125. lþ.

[18:00]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Í því máli sem er til umfjöllunar, frv. til laga um breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum, þykir mér full ástæða til að draga inn einn þátt sem enn hefur ekki verið nefndur í ríkum mæli í þessari stuttu og hröðu umfjöllun sem fer nú fram, en það er umhverfisþátturinn.

Það er alveg ljóst að frv. þetta hvetur til kaupa á stærri bílum. Það er líka alveg ljóst að stærri bílar menga meira en minni bílar. Það er alveg sama hvernig við lítum á það mál, þeir eyða meira eldsneyti og þó að vélabúnaður verði sífellt fullkomnari þá þýðir stórfelld aukning í stærri bílum jafnframt stórfellda aukningu mengunar.

Ég tel ástæðu til að draga fram í umræðuna framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun. Ég tel það frv. sem liggur frammi stríða í meginatriðum gegn þeirri framkvæmdaáætlun sem ríkisstjórnin keyrir eftir í umhverfismálum. Þess vegna hef ég óskað eftir því, herra forseti, að hæstv. umhvrh. sé viðstödd orð mín því að ég hefði gjarnan viljað heyra frá hæstv. umhvrh. hvort ekkert hafi verið leitað til umhvrn. með álit á þessu frv. er varðar umhverfisþáttinn. Satt að segja hefði mér fundist full ástæða til og hvet því hæstv. umhvrh. til að koma og segja skoðun sína á málinu og hvernig þetta blasir við henni.

Verði frv. að lögum sýnist mér að verið sé lögleiða óskynsamlega stefnu í umhverfismálum hvað aukinn útblástur varðar. Ég hef líka verið að velta því fyrir mér hvort svona snaggaraleg afgreiðsla á málinu sé ekki hættuleg fyrir okkur. Mér sýnist þetta vera mál sem þyrfti miklu meiri ígrundun og miklu gaumgæfilegri skoðun en möguleiki er á að gefa því í þessu hraða afgreiðsluferli.

Ég vil benda á það sem kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrr í dag þar sem hún benti á að Náttúruverndarsamtök Íslands, Landvernd og Umhverfisverndarsamtök Íslands hafa tjáð sig um málið. Þau vara eindregið við því að þungt lóð sé lagt á vogarskálar aukinnar mengunar og þau lýsa sig reiðubúin til samstarfs í málum af þessu tagi en til þeirra var ekkert leitað í aðdraganda vinnunnar við þetta frv. Benda má á að í áliti þessara samtaka nefna þau Árósasamninginn til sögunnar, sem er samningur sem við Íslendingar erum aðilar að og skuldbindur okkur til þess að leita til frjálsra félagasamtaka á borð við þau sem hér voru nefnd í málefnum sem þau snerta.

Annað mál langar mig að nefna sem ég tel vera varhugavert í þessu frv. og það lýtur að öryggismálunum því að ég held að hér séu á ferðinni falskar upplýsingar í grg. með frv. og í ræðu hæstv. fjmrh. hafi komið fram falskt öryggi. Ég fullyrði að áhættuhópurinn í umferðaröryggismálunum kemur ekki til með að minnka við það að allir fari að aka um á stórum bílum. Áhættuhópurinn breytist og þeir sem verða fyrir barðinu á tjóni sem stór bíll veldur verða fyrir meira tjóni en hinir sem verða fyrir tjóni sem lítill bíll veldur. Því léttari sem bíllinn er því minna tjóni veldur hann á öðrum eigum, öðrum ökutækjum og mögulega fólki. Því stærri sem bíllinn er því meira tjóni veldur hann á öðrum ökutækjum, á öðrum eigum og á fólki.

Ég veit til þess að í Skandinavíu hefur verið hreyfing í gangi sem er að vinna að því að minnka fjölda stórra bifreiða í umferð í borgum vegna þess að þeir valda meira tjóni en litlir og léttir bílar. Þessa er ekki getið í umræðunni um þetta frv. Ég tel því ekki vera um að ræða neitt mál sem eykur öryggi fólks í umferðinni því að sá sem er öruggur, sá eini sem er öruggur í stóru bílunum, er sá sem situr inni í bílnum en hinir sem verða fyrir árekstri sem stór bíll veldur eru í meiri hættu. Áhættuhópurinn breytist því og jafnvel stækkar.

Þetta vildi ég draga fram í dagsljósið, herra forseti, og þætti mikill fengur í því að fá einhvers konar umsögn eða álit hæstv. umhvrh. á þessum þáttum sem ég tel heyra undir umhvrn. og málaflokk hæstv. umhvrh. þannig að ég fagna því að umhvrh. hæstv. skuli vera í salnum.