Vörugjald af ökutækjum

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 18:12:06 (5973)

2000-04-05 18:12:06# 125. lþ. 92.1 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (lækkun gjalda) frv. 8/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 125. lþ.

[18:12]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski óþarfi en samt er tilefni til að láta þess getið hvernig þingmál fá meðferð á vettvangi ríkisstjórnar áður en þau koma inn í þingið. Þau eru vitanlega kynnt í ríkisstjórn öllum ráðherrum og farið þar yfir þætti sem varða hugsanlega önnur ráðuneyti. Í þessu máli er það ekki aðeins umhvrh. sem hefði hugsanlega áhuga á málinu, umferðarmálin heyra undir dómsmrh. En fyrst og fremst er þetta þó skattamál og fjáröflunarmál fyrir ríkissjóð.

Hins vegar er það ekki rétt sem hv. þm. sagði að stórir bílar mengi alltaf meira en litlir. Það er að koma á markaðinn alls kyns nýr búnaður, nýr vélarbúnaður og nýrri tæki þar sem þessu er öfugt farið og mengunarvarnabúnaðurinn í bílunum gerir það að verkum að þeir þurfa stærra slagrými og þar af leiðandi stærri vélar. Þetta fer ekki alltaf saman.

Markmiðið hjá okkur er að gera mönnum kleift að flytja inn slíka bíla án þess að þeim sé sérstaklega refsað fyrir það með gjaldtöku af hálfu ríkisins.

Auðvitað er óöruggara að sitja í litlum bíl ef það kemur stór bíll og keyrir á hann. En það er öruggara að sitja í stórum bíl ef það kemur lítill bíll og keyrir á hann. Ég held að það sé almennt öruggara að vera í stærri bílum en litlum bílum upp á umferðaröryggið að gera. Við erum hér að ívilna sérstaklega algengustu fólksbílategundunum sem eru með allt að 2.000 kúbíksentímetra vélum þannig að æ fleiri geti fikrað sig upp í þann stærðarflokk af bílum sem hafa til þessa þurft að kaupa ódýrustu bílana.

En auðvitað geta allir núna, ef stærstu bílarnir lækka eins og fyrir er séð, fært sig upp um flokk sem á annað borð kaupa notaða bíla vegna þess að notaðir bílar munu lækka í verði af þessum ástæðum. Þetta mun gera fleirum kleift að kaupa öflugri, öruggari og betri bíla.