Vörugjald af ökutækjum

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 18:14:21 (5974)

2000-04-05 18:14:21# 125. lþ. 92.1 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (lækkun gjalda) frv. 8/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 125. lþ.

[18:14]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar orð hæstv. fjmrh. vil ég aðeins benda á að það er ekki nægilega gott að heyra af munni hans í umræðunni að hann haldi að það sé öruggara að aka um á stórum bílum og að hann haldi þegar á allt er litið að þannig sé það. Við höfum alveg möguleika á að kynna okkur þetta svo óyggjandi sé og það hafa farið fram rannsóknir á þessum málum. Ég býðst til þess að lána hæstv. fjmrh. þær upplýsingar sem ég hef undir höndum um öryggismál í umferðinni.

Auðvitað er þetta ekki umferðaröryggismál fyrst og fremst en það breytir því ekki að það er full þörf á því að horfa á allar hliðar málsins. Þó hér sé einungis um skattamál að ræða frá sjónarhóli hæstv. fjmrh. er það ekki þannig með okkur sum hin. Þetta er líka umferðaröryggismál og þetta er líka mengunarmál. Bílar sem eyða meira bensíni en hinir sem eyða minna bensíni hljóta á endanum að menga meira, eðli málsins samkvæmt.