Vörugjald af ökutækjum

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 18:28:52 (5977)

2000-04-05 18:28:52# 125. lþ. 92.1 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (lækkun gjalda) frv. 8/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 125. lþ.

[18:28]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi svara þeim spurningum sem komu fram í máli þingmannsins hér áðan varðandi bílaleigubílana. Að sjálfsögðu mun reynt að fylgjast með því að sú lækkun sem hér er verið að skapa grundvöll fyrir komi til framkvæmda sem fyrst, ef þingmaðurinn mætti nú vera að því að hlusta á svör við spurningum hans. Auðvitað verður reynt að tryggja það. Í frv. er gert ráð fyrir að þessi grein komi til framkvæmda 15. maí á meðan aðrar greinar frv. komi strax til framkvæmda. Ástæðan er sú að forsendan fyrir þessari breytingu er að Alþingi verði áður búið að samþykkja hið nýja frv. sem hér liggur á borðum manna um bílaleigur. Nú er verið að undirbúa brtt. varðandi þetta frv. sem lýtur að því að ef bílaleigur hafi í millitíðinni fest kaup á bílum sem mundu njóta ívilnunar samkvæmt ákvæðum þessara laga og þeirrar greinar sem ekki tekur gildi fyrr en 15. maí þá verði heimilt að endurgreiða þeim mismuninn. Það er til að tryggja að lækkunin komi fram. Það verður auðvitað í verkahring samgrn. að hafa eftirlit með hinum nýju lögum um bílaleigur og þar af leiðandi líka því hvernig fer með einstaka samninga sem búið er að gera fram í tímann á þessu sviði. Ég býst nú ekki við að það verði mjög flókið að leiðrétta taxta bílaleignanna í samræmi við ákvæðin sem hér er um að tefla og þær lækkanir sem geta orðið í kjölfarið á þessum lögum.

En það er ágætt að benda á það hér að auðvitað verður fylgst með því að bílaleigurnar standi sig í stykkinu þegar þær hafa loks fengið þá ívilnun sem forsvarsmenn þeirra hafa beðið eftir í mörg ár sem og aðilar í ferðaþjónustu á Íslandi.