Vörugjald af ökutækjum

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 18:34:41 (5979)

2000-04-05 18:34:41# 125. lþ. 92.1 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (lækkun gjalda) frv. 8/2000, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 125. lþ.

[18:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs getur ekki stutt þetta frv. og vísa ég til sjónarmiða sem fram komu af okkar hálfu við umræðuna fyrr í dag.

Við styðjum eindregið þá ákvörðun að lækka vörugjald af bifreiðum sérhannaðra fyrir fatlaða. Að öðru leyti er ástæða til að hafa efasemdir um frv. sem fyrst og fremst er sniðið að þörfum hinna efnameiri í þjóðfélaginu. Frv. gengur þvert á varnaðarorð Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka sem vara við því að það kunni að verða þensluvaldandi og auka á geigvænlegan viðskiptahalla. Frv. gengur þvert á varnaðarorð ASÍ og BSRB sem segja frv. félagslega ranglátt og hvetja samtökin þingmenn til að styðja þær skattkerfisbreytingar einar sem auka á jöfnuð í þjóðfélaginu. Þetta frv. gerir það ekki. Í því kveður við gamalkunnan tón um þörf á hagræðingu og samhæfingu og að það sé fyrst og fremst tæknilegs eðlis. Hið rétta er að þetta er pólitískt frv. ríkisstjórnar sem hefur tekið að sér það hlutverk að mylja undir efnafólk á Íslandi.